Ríkisstjórnarfundur á Egilsstöðum

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Næsti fundur ríkisstjórnarinnar verður haldinn á Egilsstöðum á þriðjudaginn. Í tengslum við fundinn verður haldinn stofnfundur sameinaðrar stoðstofnunar á Austurlandi.

Þær stofnanir sem sameinast eru Þekkingarnet, Þróunarfélag, Markaðsstofa og Menningaráð Austurlands auk þess sem starfsemi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi rennur inn í sameinaða stofnun.

Valdimar O. Hermannsson, formaður verkefnisstjórnar, segir að þessar stofnanir hafi allar það hlutverk að styðja við atvinnulífið og stjórnsýsluna. Þær séu sumar smáar og verkefni þeirra skarist. Það hafi því verið ákveðið að sameina þær í eina stofnun. Það hafi komið til greina að auka samvinnu milli þeirra en eftir skoðun hafi menn komist að þeirri niðurstöðu að það skilaði meiri árangri að ganga alla leið og sameina þær.

57 menn sitja í stjórn þessara fimm stofnana í dag, en yfir sameinaðri stofnun verður sjö manna stjórn. Starfsmenn hennar verða 20 til að byrja með, en hugsanlega fleiri ef verkefni kalla á fleiri starfsmenn.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mun ávarpa stofnfundinn. Í kjölfar hans verður haldið málþing sem ber yfirskriftina Landshlutar í sókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert