„Höfum alltaf hagað okkur svona“

Frá opnun Bauhaus á laugardaginn.
Frá opnun Bauhaus á laugardaginn. Árni Sæberg

„Við höfum alltaf hagað okkur svona og gerum þetta aftur og aftur. En ég veit ekki hvort þetta er eitthvert séríslenskt fyrirbæri,“ segir Ragna Benedikta Garðarsdóttir, dósent í sálfræði við Háskóla Íslands, um kauphegðun Íslendinga, sem þykir stundum bera til tíðinda, ekki síst þegar nýjar verslanir eru opnaðar.

Það gerðist til dæmis núna um helgina þegar Bauhaus opnaði verslun sína. Talið er að á milli fimm og sex þúsund manns hafi verið mættir þegar Bauhaus lauk upp dyrum sínum.

Skemmst er að minnast þeirrar örtraðar sem myndaðist þegar fataverslunin Lindex var opnuð í Smáralind fyrir nokkrum mánuðum, en á þriðja degi þurfti að loka versluninni tímabundið vegna vöruskorts, því verslunin var hreinlega tæmd af varningi. Svipað hefur gerst þegar leikfanga- og raftækjaverslanir hafa verið opnaðar hér á landi.

Nýjabrumið hefur mikið að segja

Ragna hefur rannsakað það gildismat sem liggur að baki neysluhegðun Íslendinga og segir að nýjabrumið hafi mikið að segja í þessu sambandi. 

„Fólk er ánægt með að sjá eitthvað nýtt. Eitthvað útlenskt og spennandi, en það er bara mín tilfinning og hefur ekki verið rannsakað sérstaklega. Þetta er líka hugmyndin um skort, þegar eitthvað lítur út fyrir að vera af skornum skammti verður fólk hrætt við að missa af vörunni ef það kaupir hana ekki strax,“ segir Ragna. „Svo er líka búið að auglýsa þessa opnun vel og vandlega; Við opnun þennan dag, klukkan þetta. Það er hálfpartinn verið að segja fólki að mæta. Þannig að það er ekkert skrýtið að fólk hlýði því.

Það er ekki hægt að fullyrða að fólkið sem flykkist í opnun Bauhaus eða annarra verslana sé haldið meiri neysluhyggju en aðrir og ég vil ekki eigna þessu fólki einhverjar annarlegar hvatir, kannski eru bara allir að byggja og hafa verið að bíða eftir þessari opnun.“

Ragna segir að ekkert sé hægt að fullyrða um þennan hóp. „Það getur vel verið að þessu sé stýrt af fullkomnlega skynsamlegum hvötum eða af neysluhyggju. En það þyrfti að rannsaka þennan hóp til þess að geta fullyrt um það. Kannski er þetta líka að einhverju leyti vegna hjarðhegðunar. Það er ekki ólíklegt. En enginn veit nákvæmlega hvernig á að rannsaka hana vegna þess að enginn veit hver er leiðtoginn.“

Óskynsamleg neysluhegðun

Ragna segir að Íslendingar séu að öllu jöfnu ákaflega óskynsamir í neysluhegðun. 

„Við högum okkur ekki eins og hinn skynsami neytandi ætti að haga sér og það eru til rannsóknir sem sýna það. Við veljum frekar dýrari vöru umfram ódýrari. Ef boðið er upp á tvær algerlega sambærilegar vörur veljum við frekar þá dýrari en þá ódýrari vegna þess að við höldum að það séu meiri gæði í henni bara út af verðmiðanum.“

Frétt mbl.is: Allt fullt hjá Bauhaus 

Ragna Benedikta Garðarsdóttir.
Ragna Benedikta Garðarsdóttir. mbl.is
Frá opnun Bauhaus.
Frá opnun Bauhaus. Árni Sæberg
Frá opnun verslunar Lindex í Smáralind.
Frá opnun verslunar Lindex í Smáralind. mbl.is
Röðin fyrir utan verslunina Toys'R'Us var gríðarlöng þegar verslunin var …
Röðin fyrir utan verslunina Toys'R'Us var gríðarlöng þegar verslunin var opnuð í október 2007. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert