Ekki vörslusvipt gegn mótmælum

Nokkuð hefur færst í vöxt í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 …
Nokkuð hefur færst í vöxt í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 að kröfuhafar hafi við innheimtu krafna tekið aftur vörslur þeirra muna sem skuldarar hafa gert samning um leigu á. mbl.is/Ómar

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis lagði í dag fram frumvarp þar sem lagðar eru til breytingar á verkferlum við vörslusviptingar. Verði frumvarpið samþykkt þarf að afla skriflegs samþykkis skuldara áður en vörslusvipting getur farið fram.

Um er að ræða nýtt ákvæði sem bætt er inn í innheimtulög. Í því segir að innheimtuaðili skuli, hvort sem er við frum- eða milliinnheimtu, afla skriflegs samþykkis skuldara áður en lausafé er tekið úr vörslum skuldara, enda sé skuldari í vanskilum með afborganir eða lánskostnað. Innheimtuaðili skuli jafnframt láta skuldara í té afrit skriflegs samþykkis í síðasta lagi samtímis afhendingu lausafjármunar.

Liggi samþykki skuldara ekki fyrr verður innheimtuaðili að leita aðfarar eftir reglum aðfararlaga.

Verkefni framkvæmdavalds og dómstóla

Í greinargerð með frumvarpinu segir að frá efnahagshruninu haustið 2008 hafi það færst í vöxt að kröfuhafar hafi við innheimtu krafna tekið aftur vörslu þeirra muna sem skuldarar hafa gert samning um leigu á. Í sumum tilvikum hafi afhending muna verið framkvæmd með samþykki skuldara en í öðrum tilvikum án slíks samþykkis og þá jafnvel með þeim hætti að skuldari hafi ekki fengið vitneskju um vörslusviptinguna fyrr en eftir að hún fór fram.

„Á það hefur verið bent að vafi getur verið um réttmæti þeirra lánssamninga sem um teflir og að í sumum tilvikum kunni fjármögnunarleigufyrirtæki að hafa svipt umráðamenn lausafjár vörslu þeirra þegar slíkur vafi var fyrir hendi. Sé vörslusvipting við slíkar aðstæður varasöm.“

Þá segir að brýnt sé að bæði kröfuhafar og ekki síst skuldarar geti leitað til dómstóla þegar svo háttar til að ágreiningur standi um réttmæti lánssamnings og uppgjör hans. „Er því í frumvarpinu tekið skýrt fram að slík vörslusvipting geti ekki farið fram gegn mótmælum skuldara.“

Með frumvarpinu er lagt til að skýrt verði kveðið á um þá meginreglu að einstaklingar geti almennt ekki tekið rétt sinn sjálfir, heldur þurfi þeir að fá atbeina handhafa ríkisvalds til þess að fá samning sinn efndan. „Vörslusvipting lausafjármuna og endurheimta þeirra, gegn mótmælum umráðamanns, er verkefni framkvæmdarvalds og dómstóla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert