Lítil ásókn í laus störf á Suðurnesjum

Reykjanesbær.
Reykjanesbær. www.mats.is

Eigendur saumastofunnar Víkurprjóns í Vík í Mýrdal eru afar vonsviknir með litla ásókn í ný störf sem auglýst voru vegna saumastofu sem til stendur að opna í Reykjanesbæ í næsta mánuði. Til stendur að manna 10-11 stöður en á hádegi í dag höfðu aðeins 5 umsóknir borist. 

Víkurprjón var selt félaginu Drífu ehf., sem m.a. rekur verslanir Icewear, í mars síðastliðnum. Víkurfréttir hafa eftir Ágústi Þ. Eiríkssyni eiganda Drífu að fyrirtækið sé í örum vexti og Reykjanesbær hafi verið talinn ákjósanleg staðsetning fyrir nýja saumastofu, m.a. í ljósi þess að atvinnuleysi er þar mest á landinu. Tekið er fram að atvinnulausir umsækjendur hafi forgang fram yfir aðra. 

„Mikið atvinnuleysi er á svæðinu og þá sérstaklega á meðal kvenna. Viðbrögðin hafa valdið okkur gríðarlegum vonbrigðum. Ég átti von á því að um 30 manns myndu sækja um, maður spyr sig því hreinlega hvað sé eiginlega í gangi á Suðurnesjum," segir Ágúst í samtali við Víkurfréttir.

Að sögn Ágústs stendur til að borga laun sem eru vel samkeppnishæf. Æskilegt sé að starfsfólk hafi reynslu úr saumaskap en starfsþjálfun stendur þó til boða ef þurfa þykir. „Samkvæmt þessu er ekki að sjá að það sé mikið atvinnuleysi þarna," hafa Víkurfréttir eftir Ágústi. 

Víkurfréttir birtu einnig í dag viðtal við Magnús Þórisson, eiganda matstofunnar Réttarins í Keflavík, sem sagði frá því að ekkert gengi að fá fólk í kvöldvinnu á matstofunni þótt mikið hafi verið auglýst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert