Dugar ekki fyrir vöxtunum

Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður.
Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Frá því að Seðlabankinn hóf gjaldeyrisútboð sem lið í að afnema gjaldeyrishöft hefur tekist að losa út 35 milljarða króna. Þessi upphæð dugar ekki einu sinni fyrir vöxtum af þeim eignum sem erlendir aðilar eiga hér á landi.

Þetta sagði Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í umræðum á Alþingi um afnám gjaldeyrishafta. Hann sagði að lítill árangur væri af þeirri áætlun sem Seðlabankinn ynni eftir um afnám hafta. Það þyrfti að koma til breið pólitíska samstaða um afnám hafta.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem hóf umræðuna, tók undir þetta og sagði að ríkisstjórnin hefði útvistað til Seðlabanka því verkefni að afnema höftin. Hann réði ekki við þetta verkefni enda þyrfti pólitískt afl að standa að baki þessu mikilvæga verkefni.

Illugi sagði að gjaldeyrishöftin væru mjög skaðleg fyrir efnahag landsins. Þau væru líka skaðleg fyrir lífeyrissjóðina sem ekki mættu fjárfesta erlendis og þau græfu líka undan gengi krónunnar. Vaxtahækkun Seðlabankans gerði þetta verkefni síðan enn erfiðara. Illugi sagði að þetta væri pólitískt og tæknilegt viðfangsefni. Það þyrfti að skapa traust til að koma í veg fyrir að þegar „snjóhengja“ erlendra krónueigna færi úr landi leiddi það ekki til þess að innlánseigendur færu líka burt með sínar eignir. Mjög mikilvægt væri í þessu samhengi að reka ríkissjóð hallalausan því skuldasöfnun ríkissjóðs hefði verið óeðlilega ódýr í skjóli haftanna.

Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, kallaði líka eftir þjóðarsátt um afnám gjaldeyrishafta. Hann sagði að koma þyrfti þessu máli út úr þrætustigi stjórnmálanna. Einfaldasta leiðin til að afnema höftin væri að taka upp evru.

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingar, sagði mikilvægt að verja almenning í landinu um leið og gjaldeyrishöft yrðu afnumin því hætta væri á að gengi krónunnar lækkaði mikið þegar höftin yrðu afnumin. Menn þyrftu líka að svara því hvað ætti að taka við eftir að höftin hefðu verið afnumin. Vandamálið væri að við værum ekki með traustan gjaldmiðil. Ef krónan væri traustur gjaldmiðill værum við ekki með gjaldeyrishöft.

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði að í öllum aðalatriðum hefði sú áætlun sem Seðlabankinn ynni eftir gengið eðlilega fyrir sig. Það væri verið að reyna að létta á snjóhengjunni með því að bjóða óþolinmóðasta fjármagninu að komast út með sínar eignir. Steingrímur sagði að við gætum hins vegar ekki farið í afnám hafta með einhverjum glannaskap með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð og almenning í landinu. Hann sagðist geta tekið undir mikilvægi þess að reka ríkissjóð án halla og þakkaði fyrir þá samstöðu sem væri að finna í máli þingmanna um afnám haftanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert