Slasaðist alvarlega í Aðalvík

Karlmaður sem féll í klettabelti í Aðalvík á Hornströndum í dag hefur verið fluttur á gjörgæsludeild en hann er alvarlega slasaður, samkvæmt upplýsingum frá lækni. Er maðurinn með alvarleg beinbrot og fer í aðgerð síðar í kvöld. Maðurinn féll tíu til tuttugu metra er hann var við eggjatöku í bjarginu.

Var hann fluttur til Reykjavíkur með þyrlu Landhelgisgæslunnar og lenti þyrlan með hann við Landspítalann um klukkan 19.30 í kvöld. Var maðurinn hífður um borð í þyrluna úr björgunarskipi Ísfirðinga undir Grænuhlíð þar sem aðstæður voru betri heldur en á slysstað en björgunarsveitarmenn komu til mannsins á sjötta tímanum.

Tilkynning barst um að maður hefði hrapað niður klettabjarg um klukkan hálffjögur í dag og voru björgunarsveitir þegar kallaðar út og áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þegar útkallið kom var hópur þrautþjálfaðra manna skammt frá slysstaðnum og fóru þeir strax til mannsins og hlúðu að honum og biðu hjá honum þar til björgunarsveitarmenn komu á björgunarbátum og björgunarskipi frá Ísafirði. Björgunarsveitarmenn  bjuggu um áverka mannsins eins og hægt var og fluttu hann svo um borð í björgunarskipið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert