Svifryk tvisvar yfir mörkum það sem af er ári

Mikið svifryk mældist á höfuðborgarsvæðinu í gær
Mikið svifryk mældist á höfuðborgarsvæðinu í gær Kristinn Ingvarsson

Svifryksmistrið sem að lá yfir Suður- og Vesturlandi í gær fór fram hjá fáum. Mest fór mengunin í 465,8 míkrógrömm á rúmmetra um klukkan 23.00 samkvæmt vef Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Heilsuverndarmörk á sólarhring miðast við 50 míkrógrömm á rúmmetra og var þetta í annað sinn á árinu sem að magnið fór yfir mörkin.

„Við höfum verið heppin með að magnið hafi aðeins tvisvar sinnum farið yfir hámarkið í ár, en verið hefur fremur blautt og aðstæður þannig veðurfarslega góðar,“segir Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar. „Í fyrra vorum við búin að fara oftar yfir hámarkið á þessum tíma.“

Árný dregur ekki úr að magnið hafi verið mjög mikið í gær og vel yfir þeim mörkum sem að þeir sem eru viðkvæmir fara finna fyrir óþægindum. Það gerist jafnan verði magnið meira en 150 míkrógrömm á rúmmetra.

Að sögn Árnýjar mun lítið draga úr slíku foki fyrr en gosefnin fara að bindast meira ofan í jörðina og gróður vex í auknum mæli upp úr gosefnalaginu.

Varðandi aðgerðir yfirvalda í slíkum aðstæðum er takmarkað hægt að gera þegar þær myndast svona af náttúrunnar hendi nema vara viðkvæma við. „Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er með viðbragðsáætlun um skammtímaaðgerðir út af svifryksmengun eins og allri annarri mögulegri loftmengun. Þar er einkum um að ræða aðgerðir er varða umferð, nagladekk o.s.frv. Þannig er reynt að ráða við það sem kemur til af mannanna völdum.“ 

Fljótlega dró úr svifrykinu sl. nótt eftir að fór að rigna um miðnættið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert