Vonsvikin með orð Ögmundar

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

„Miðað við það sem að kom fram í Morgunblaðinu í dag þá er ég vonsvikin með orð Ögmundar vegna þess að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla er svo nálægt áramótum að ég taldi að þetta myndi uppfylla hans kröfur,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Í Morgunblaðinu í dag var rætt við Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, en þar segist hann ekki styðja tillögu Vigdísar Hauksdóttur þess efnis að samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs verði þjóðin spurð hvort stöðva eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Vigdís segist vera undrandi ummælum Ögmundar enda hafi hún, miðað við fyrri orð hans, talið Ögmund vera tryggan stuðningsmann tillögu sinnar. „Mér finnst alveg ófært að við látum fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að grípa tækifærið og spyrja að þessu í leiðinni,“ segir Vigdís.

Í blaðinu í dag kom jafnframt fram að Birkir Jón Jónsson og Eygló Harðardóttir, þingmenn Framsóknarflokksins, ætli sér bæði að styðja tillögu Vigdísar. „Ég fagna því að bæði Birkir og Eygló hafi ákveðið að styðja þetta mál,“ segir Vigdís í samtali við blaðamann mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert