Tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu samþykkt

Frá Alþingi í dag
Frá Alþingi í dag mbl.is/Árni Sæberg

Alþingi samþykkti í dag þingsályktunartillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í síðasta lagi 20. október um tillögur stjórnlagaráðs. Tillagan var samþykkt með 35 atkvæðum gegn 15.

Tillaga nefndarinnar gengur út á að lagðar verði sex afmarkaðar spurningar fyrir þjóðina, en þær eru um hvort leggja eigi tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, en einnig er spurt um náttúruauðlindir, um stöðu þjóðkirkjunnar, um persónukjör, jöfnun atkvæðavægis og um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Greidd voru atkvæði um allar greinar tillögunnar sérstaklega og voru þær allar samþykktar. Allar breytingartillögur stjórnarandstöðunnar voru felldar.

Stjórnarandstæðingar gagnrýndu margir tillögurnar og sögðu að spurningarnar væru óljóst orðaðar og erfitt gæti orðið að vinna úr niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Nokkrir þingmenn gagnrýndu val á spurningum og spurðu hvers vegna ekki væri t.d. spurt um álitmál varðandi stöðu forseta Íslands.

Stjórnarliðar sögðu mikilvægt að bera þetta mál undir þjóðina. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði við upphaf atkvæðagreiðslunnar að um sögulega stund væri að ræða.

Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þakkaði þinginu að klára þetta. Málið kæmi síðan til efnislegrar umræðu í haust. Þá færi vonandi fram umræða sem yrði án útúrsnúninga.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði að þessi atkvæðagreiðsla færi fram vegna þess að stjórnarmeirihlutinn treysti sér ekki til að taka efnislega afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs. Hann sagði athyglisvert að þingmenn meirihlutans hefðu ekkert sagt um hvaða afstöðu þeir hefðu til þeirra spurninga sem bera ætti undir þjóðina.

Tillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Tillögur stjórnlagaráðs

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert