„Ekki beitt mér á einn eða annan hátt“

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Reuters

„Ég er að segja að hann sé að segja ósatt um það að ég gangi hér á eftir þingmönnum og segi þeim hvernig þeir eigi að greiða atkvæði. Auðvitað gera þeir það sjálfir eins og þeir vilja. Ég hef ekki beitt mér á einn eða annan hátt í þessu máli,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi í dag.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Jóhönnu hvort hún hefði haft í hótunum við einstaka þingmenn í tengslum við atkvæðagreiðslu um tillgögur stjórnlagaráðs í gær. Hann vildi vita hvort forsætisráðherra hefði beitt sambærilegum hótunum í gær líkt og gert var sumarið 2009.

„Mér leikur forvitni á því að vita hvort hæstvirtur forsætisráðherra beitti sér með sama hætti í þessu máli. Var einstökum ráðherrum og þingmönnum VG stillt upp í málinu líkt og hæstvirtur forsætisráðherra gerði hér sumarið 2009 eins og við munum svo öll vel eftir,“ sagði Ásmundur.

Jóhanna segist ekki vera óvön því að menn leggi sér ósönn orð í munn, allra síst Ásmundur Einar. Þá barst spurning úr þingsal hvort Jóhanna væri að væna Ásmund um lygi. „Ég er að segja að hann sé að segja ósatt um það að ég gangi hér á eftir þingmönnum og segi þeim hvernig þeir eigi að greiða atkvæði,“ sagði Jóhanna þá.

Hún sagði að Ásmundur væri mjög súr yfir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. „Hann verður að taka þá niðurstöðu sem verður hér í atkvæðagreiðslu um þetta mál eins og önnur. En láta það ekki endurspeglast í fýlu og depurð hér í ræðustól og ósannindum í garð mín sem forsætisráðherra,“ sagði Jóhanna.

Ásmundur sagði að eitthvað væri forsætisráðherra farið að förlast minnið. Hann vísaði því næst til orða sem Jóhanna lét falla í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2009.

„Í óundirbúnum fyrirspurnum 2009 sagði hæstvirtur forsætisráðherra aðspurð að: „Við skulum vona að atkvæðagreiðslan verði með þeim hætti að þessi ríkisstjórn starfi áfram.“ Sama dag og þessi atkvæðagreiðsla fór fram sagði háttvirtur þingmaður Birgitta Jónsdóttir, með leyfi frú forseta: „Í dag var hið andlega ofbeldi stundað fyrir opnum tjöldum af konu sem eitt sinn var álitin heilög, en ég hygg að sá ljómi sé óðum að hverfa. Því völd geta með sanni gert vænsta fólk að skrímslum. Það að horfa á hana þjarma að þingmönnum samstarfsflokksins eins og raun bar vitni og heyra mátti hótanir um að ef viðkomandi greiddi ekki atkvæði með samningum væri sá og hinn sami ábyrgur fyrir falli ríkisstjórnarinnar.“ Þetta sagði háttvirtur þingmaður Birgitta Jónsdóttir á sínum tíma,“ sagði Ásmundur og sakaði forsætisráðherra um að segja ósatt.

Jóhanna sagði þessi ummæli þingmannsins væru ekki svaraverð og honum ekki samboðin. „Og ætla ég mér ekki að svara þeim,“ sagði Jóhanna.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert