Erum ekki að brjóta lög

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. Brynjar Gauti

„Það er ekki rétt að sveitarfélagið sé að brjóta lög þar sem tíu ára aðlögunartími  var gefinn til að laga sig að nýjum reglum,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.

Greint var frá því í fréttum RÚV í gær, og vitnað í fréttina á mbl.is, að þrjú af fimm stærstu sveitarfélögum landsins uppfylltu ekki skilyrði nýrra sveitarstjórnarlaga um fjárhagsstöðu. Samkvæmt lögunum, sem að samþykkt voru í fyrra, er kveðið á um að skuldir sveitarfélags megi ekki fara yfir 150 prósent af rekstrartekjum sveitarfélagsins. Samkvæmt fréttinni mældist skuldahlutfall hjá Kópavogsbæ 244 prósent af tekjum bæjarins og enn hærra var hlutfallið hjá Hafnarfirði og Reykjanesbæ.

Í lögunum er vísað til nánari útfærslu á fyrrgreindu skilyrði í reglugerð sem að enn hefur ekki verið gefin út af innanríkisráðuneytinu. „Það er alveg ljóst og hefur alltaf verið í umræðunni, bæði hjá eftirlitsnefndinni sem og í drögum að þessari reglugerð, að ná skuli skuldahlutfallinu niður á innan við tíu árum,“ segir Ármann.

„Við efnahagshrunið 2008 hækkuðu skuldir Kópavogsbæjar verulega. Á þeim tíma voru engin skuldahlutföll í neinum lögum né í umræðunni almennt. Samt brást bærinn hart við og byrjaði þegar að vinna að því að snúa stöðunni við. Í þriggja ára áætlun, sem lögð var fram í vetur, má sjá að skuldahlutfallið mun lækka hratt á næstu árum, svo framarlega sem þokkalegur stöðugleiki ríkir í efnahagslífinu. Rekstur bæjarins hefur verið að skila sterku veltufé frá rekstri og ef að ekkert óvænt kemur upp á í efnahagslífinu á að vera auðvelt fyrir bæinn að uppfylla skilyrði nýju laganna innan tilskilins frests,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert