Allt óvíst um lengd þingfundar

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Sigurgeir Sigurðsson

Tekist var um lengd þingfundar á Alþingi eftir matarhlé þingmanna kl. 19.30. Þingmenn Sjálfstæðisflokks fóru mikinn og bentu meðal annars á að af þeim sem greiddu atkvæði með kvöldfundi séu fimm þingmenn í húsi. Utanríkisráðherra fór fram á að fundur standi fram til klukkan fimm á morgun.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði með ólíkindum að heyra þingmenn Sjálfstæðisflokksins væla eins og stungna grísi yfir því að vinna fyrir laununum sínum. Hann sagði varla komið kvöld og að fundurinn ætti minnst að standa fram á morgun. Hann benti á að þingmenn Sjálfstæðisflokks hafi sagst þurfa tala mikið og hann skuli sitja undir því, eins lengi og það tekur.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, sagði utanríkisráðherra geta komið upp í ræðustól með kjánalæti og fíflalæti eins og hann lysti. En það sé gamaldags að halda því fram að þingmenn vilji ekki vinna vinnuna sína. Hún spurði forseta hvar fulltrúar stjórnarflokkanna úr atvinnuveganefnd væru, því þeir væru ekki að taka þátt í umræðunni.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kom svo upp í ræðustól og bar um þó ekki væri nema vísbendingu um það hvenær fundi ljúki. 

Leyst úr ágreiningi með atkvæðagreiðslu

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, sagði það lágmarkskröfu að þingmenn virði fundarsköp og leikreglur lýðræðisins. Ágreiningur hafi staðið um hvort halda ætti kvöldfund og úr honum hafi verið leyst með atkvæðagreiðslu. Það að taka dýrmætan tíma frá umræðunni til að mótmæla þeirri niðurstöðu sé ekki boðlegt.

Össur kom aftur upp í ræðustól og endurtók að sjálfstæðismenn nenni ekki að vinna vinnuna sína. Þeir nenni ekki að sitja undir eigin málþófi. Hann sagðist hafa tekið þátt í umræðunni í dag og heyrt þá nánast sprengja sig á því að reyna fylla upp í tímann.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kom síðust upp og sagði rétt að farið hafi fram atkvæðagreiðsla um kvöldfund. Staðan sé hins vegar sú að aðeins séu fimm þingmenn sem greiddu atkvæði með kvöldfundi í húsinu. Þrír frá Vinstri grænum og tveir frá Samfylkingunni. Það sýndi raunverulegan vilja þingmanna stjórnarflokkanna til að ræða málið. Hún benti á að varlega þyrfti að fara með lýðræðið.

Að svo búnu hélt umræðan um veiðigjöld áfram og eru átján þingmenn á mælendaskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert