Rangt hjá Steingrími

Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna. mbl.is

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna segir rangt hjá Steingrími J. Sigfússyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að útvegsmenn hafi haft aðgang að málum við frumvarpssmíði á þeim frumvörpum sem nú liggja til meðferðar hjá Alþingi, frá ríkisstjórninni, um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni.

„Það var engin aðkoma af okkar hálfu. Enda sáum við engan texta áður en þetta var birt,“ segir Friðrik og að ef það sé vilji hjá ráðherra um aðkomu LÍU að málum hljóti að vera lítið mál að setjast niður og ræða málin. Hann vísaði í umsagnir LÍÚ um frumvörpin þar sem fram hafi komið gagnrýni á vinnubrögðin við gerð þeirra.

Í umsögn LÍÚ frá 29. mars síðastliðinn segir: „Landssamband íslenskra útvegsmanna átelur harðlega vinnubrögð við gerð frumvarpanna þar sem ekkert samráð var haft við atvinnugreinina. Verði frumvörpin að lögum munu þau hafa grafalvarleg áhrif á íslenskan sjávarútveg og íslenskt samfélag.“

Neðar í sömu umsögn segir svo einnig: „Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna skorar á ríkisstjórnina að draga frumvörpin til baka og vinna þau faglega með þátttöku atvinnugreinarinnar.

Útvegsmenn óska eftir að skipaður verði starfshópur sérfræðinga með fulltrúum stjórnvalda og útgerðarmanna til að meta þjóðhagsleg áhrif frumvarpanna, áhrif þeirra á atvinnugreinina, starfsfólk og sveitarfélögin.“

Í fréttatilkynningu frá LÍÚ í dag sagði að útvegsmenn hafi ítrekað leitað eftir samstarfi við stjórnvöld um niðurstöðu um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, en alltaf án árangurs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert