Landlæknir fái ekki auknar heimildir

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd Alþingis leggjast gegn því að landlæknir fái auknar heimildir til að safna persónugreinanlegum upplýsingum. Frumvarp þessa efnis liggur fyrir þinginu, en það er flutt í kjölfar PIP-brjóstapúðamálsins.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir segja í nefndaráliti sínu að um sé að ræða tillögu sem veiti landlækni mjög umfangsmikla og opna heimild til að safna persónugreinanlegum upplýsingum með vísan til eftirlitshlutverks embættisins. Engar takmarkanir virðist samkvæmt tillögunni á heimild landlæknis og hann eigi að fá sjálfdæmi um það í hvaða tilvikum hann sækir slíkar upplýsingar. 

Meirihluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt. Frumvarpið kveður á um að það verði skylda að láta landlækni í té upplýsingar og gögn vegna eftirlits með heilbrigðisþjónustu. Þetta taki m.a. til tímabundinnar söfnunar persónugreinanlegra upplýsinga og gagna, sem landlæknir telur nauðsynleg vegna eftirlits með afmörkuðum þáttum heilbrigðisþjónustu í því skyni að tryggja gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga.

Álfheiður Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, sagði þegar hún mælti fyrir málinu að því væri ekki að leyna að frumvarpið ætti rætur að rekja til afstöðu Læknafélags Íslands „sem skaut skildi fyrir lýtalækna í upphafi árs sem neituðu að afhenda landlækni upplýsingar um brjóstaaðgerðir í kjölfar PIP-hneykslisins“.

Þeirri deilu var vísað til Persónuverndar sem úrskurðaði læknafélaginu í vil. Álfheiður sagði þetta algert prinsippmál og spurningu um hvers virði eða til hvers lög um landlækni og lýðheilsu séu ef verkfærin séu tekin af embættinu sem séu til þess ætluð að hann uppfylli skyldur sínar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert