Bíður eftir nýjum ráðherra

Ólafur Haukur Johnson, eigandi og skólastjóri menntaskólans Hraðbrautar.
Ólafur Haukur Johnson, eigandi og skólastjóri menntaskólans Hraðbrautar. mbl.is/Eggert

„Ég er að bíða eftir því að við fáum nýjan ráðherra,“ segir Ólafur Haukur Johnson, eigandi og skólastjóri menntaskólans Hraðbrautar, sem hefur tilkynnt nemendum og starfsmönnum skólans að starfsemi Hraðbrautar leggist af að skólaári loknu nú í júlí, í bili að minnsta kosti.

„Ég er alfarið þeirrar skoðunar að pólitískt viðhorf til eignarhalds á skólanum ræður alfarið för. Skólinn sjálfur er búinn að sýna sig og sanna. Það er í rauninni búið að bjóða ráðherra allt sem mögulegt er varðandi framtíðina; ódýrari nemendaígildi og guð má vita hvað,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Hann segir í tilkynningu, sem birt hefur verið á vef skólans, að þegar skólanum hafi verið synjað um nýjan þjónustusamning hafi verið um aðför stjórnvalda að einkarekstri að ræða. Sú aðför hafi heppnast vel.

Ólafur segir í samtali við mbl.is, að fjölmargir þingmenn séu hlynntir skólanum, m.a. Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar alþingis, sem og Skúli Helgason, sem er varaformaður nefndarinnar. „Ríkisendurskoðandi er hlynntur því að það verði gerður áframhaldandi samningur við skólann,“ segir Ólafur ennfremur.

Aðspurður segist hann því finna fyrir stuðningi víða en ekki hjá núverandi menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur. „Já, það er bara svoleiðis.“

Hann segist hafa fengið bréf frá menntamálaráðuneytinu síðdegis í gær þar sem endanlega var greint frá því að skólanum hefði verið synjað um nýjan þjónustusamning. Hann greindi svo nemendum og starfsmönnum skólans frá þessu í dag, en tilkynning þess efnis var birt á heimasíðu skólans og hann sendi hana einnig á fjölmiðla.

Nemendum boðið að sækja um í öðrum skólum

Hvað varðar nemendur skólans segir Ólafur að staðan sé hræðileg. Það sé hins vegar ánægjulegt að skólastjórnendur úr öðrum menntaskólum hafi haft samband og boðið nemendunum að sækja um. „Það mál á alveg að leysast,“ segir Ólafur og bætir við aðspurður að þetta snerti tæplega 30 nemendur.

„Nemendurnir eru auðvitað mjög slegnir. En hitt er annað, að þetta er búið að vinnast svolítið stig af stigi. Í síðustu viku ræddi ég það við nemendur að staðan væri mjög alvarleg og að þeir skyldu huga að því að sækja um skólavist annars staðar, þó svo að það væri ekki búið að taka endanlega ákvörðun. Þannig að þeir gerðu það vel í tíma meðan opið var fyrir umsóknir í aðra skóla,“ segir Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert