Eftirlit með svartri vinnu verði hert

Stjórn Vinnumálastofnunar lýsir yfir áhyggjum af því að of margir atvinnuleitendur hafa látið hjá líða að skrá sig í vinnumiðlun í tengslum við átaksverkefnið eða hafnað störfum sem í boði eru. Slíkt er talið merki um svarta atvinnustarfsemi.

Á fundi stjórnar Vinnumálastofnunar í gær var ályktun einróma samþykkt. Í henni segir að með átaksverkefninu Vinnandi vegur hafi stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðsins skapað um 1.500 ný störf fyrir atvinnuleitendur. Og um þúsund langtímaatvinnuleitendur hafi þegar fengið ráðningu innan átaksins.

„Stjórn Vinnumálastofnunar lýsir hins vegar áhyggjum sínum af því að of margir atvinnuleitendur hafa látið hjá líða að skrá sig í vinnumiðlun í tengslum við átaksverkefnið eða hafnað störfum sem í boði eru. Í einhverjum tilfellum er slíkt merki um svarta atvinnustarfsemi.“

Stjórnin hvetur til þess að löggjöf varðandi viðurlög við bótasvikum og höfnun vinnu verði endurskoðuð af þessu tilefni. Jafnframt verði eftirlit með svartri atvinnustarfsemi eflt, bæði innan eftirlitsdeildar VMST og á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðaris.  „Svört atvinnustarfsemi og bótasvik grafa undan grunni velferðarkerfisins og samfélaginu í heild.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert