Leyfilegt að drekkja dýrum

Deilt er um hvort leyfa eigi að drekkja dýrum.
Deilt er um hvort leyfa eigi að drekkja dýrum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á aðalfundi Dýralæknafélags Íslands var send út ályktun þar sem mótmælt var harðlega þeim breytingum sem gerðar voru í  meðförum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á tillögum nefndar sem ritaði frumvarp til nýrra laga um dýravelferð og ráðherra kynnti fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna í vor.

Í tillögum nefndarinnar voru skýr ákvæði um að bannað yrði að drekkja dýrum eða aflífa dýr með útblæstri véla. Þessu hefur verið breytt á þann veg að það verði  heimilt.

Guðbjörg Þorvarðardóttir, formaður Dýralæknafélags Íslands, segir að mest séu þessar aðferðir notaðar til að aflífa minka og að sumar minkagildrur drekki þeim. Guðbjörg telur að sama eigi að ganga yfir öll dýr og það gangi ekki að leyfa að drekkja dýrum svo hægt sé að drekkja minkum því þá verði erfitt að halda því til streitu að ekki megi drekkja öðrum dýrum líkt og kettlingum eða hvolpum. Þetta eigi að vera bannað.

Þá var einnig í tillögum nefndarinnar ákvæði um að grasbítum skyldi tryggð sumarbeit, þessu var breytt á þann veg að útivist á grónu landi yrði nægjanleg. Þá var gerð breyting á tillögum nefndarinnar þess efnis að heimila ætti geldingar grísa án deyfingar.

Guðbjörg harmar þessar breytingar og telur þær stefna í kolranga átt. Fleiri slæmar breytingar hafi verið gerðar en í ályktun félagsins voru aðeins teknar út þær mikilvægustu.

Félagið leggst eindregið gegn þessum breytingum og vekur einnig athygli á að tekið hefur verið út áhrifaríkt þvingunarúrræði sem nefndin lagði til, en það var heimild Matvælastofnunar til að skerða eða fella niður ríkisstyrki til þeirra sem brjóta gegn dýrum. En þessi þvingunarúrræði hafa þótt mikilvæg fyrir velferð dýra í landinu.

Félagið telur breytingarnar í andstöðu fyri 1. grein frumvarpsins sem er svohljóðandi: „Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og  sjúkdóma. Ennfremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur.“ 

Guðbjörg segir að fyrst þeir vilji hafa þessi ákvæði í lögunum sé nær víst að þessar aðferðir séu notaðar einhvers staðar. Það sé ótrúlegt að svona breytingar séu gerðar á drögum nefndarinnar sem lagt hafi mikla vinnu í þau. Allir hafi beðið í óratíma eftir endurbótum á lögunum og með þeim ætti að reyna að setja þá stefnu sem gildir í mörgum Evrópulöndum líkt og í Noregi. „Með þessum slæmu breytingum eigum við enn langt í land.“ 

Ályktun frá félaginu var send öllum þingmönnum og ráðuneytum.

Þekkt er að minkagildrur drekki minkum.
Þekkt er að minkagildrur drekki minkum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert