Íbúðalánasjóður kaupir ekki lánsveð

Íbúðalánasjóður yfirtekur ekki lánsveð.
Íbúðalánasjóður yfirtekur ekki lánsveð. Árni Sæberg

Samráðsnefnd um leiðir að niðurfellingu lánsveða hefur komist að þeirri niðurstöðu að flókið sé að láta Íbúðalánasjóð kaupa lánsveðskröfur lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja. Betra sé að færa lánin niður beint frá þeim stað sem þau eru núna.

Enn liggur þó ekki fyrir hver eigi að borga fyrir niðurfellinguna. Svo segir Sigurður Erlingsson framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs en hann sat í nefndinni. Nefndin hefur nú lokið störfum að mestu.

Sigurður segir upprunalegu hugmyndina hafa verið þá að láta Íbúðalánasjóð yfirtaka lánsveðin en ekki hafi verið lagalegur grundvöllur fyrir því. „Upprunalega var hugmyndin sú að lánasöfnin yrðu keypt úr lífeyrissjóðunum en sú leið er torsótt lagalega. En það er hægt að ná sömu markmiðum um niðurfellingu með öðrum leiðum. Við sem sátum í nefndinni vorum sammála um að það væri ekki praktískt að fara þá leið að láta Íbúðalánasjóð kaupa lánin,“ segir Sigurður.

,,Umræðan snýst ennþá um það hver eigi að bera kostnað af niðurfærslu á yfirveðsetningu fasteigna sem keypt voru með lánsveðum. Niðurstaða liggur ekki fyrir með það. Við bentum í raun eingöngu á það að lagalega væri best að hafa lánin áfram í lífeyrissjóðunum og hjá bönkunum og færa þau niður frá þeim stað sem þau eru á núna," segir Sigurður.

Unnið að umfangi yfirveðsettra lánsveða hjá bönkum

Samkvæmt upplýsingum mbl.is stendur nú yfir vinna við að meta umfang þeirra lánsveða sem eru hjá bönkum og fjármálastofnunum. Þessi vinna hefur þegar farið fram hjá lífeyrissjóðum.

Ráðherranefnd mun í kjölfarið taka ákvörðun um hvaða leið sé best að fara við niðurfellingu yfirveðsettra lána sem tryggð eru með lánsveði. Sé hún gerleg á annað borð.

Í nefndinni voru fulltrúar frá Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum, Samtökum fjármálafyrirtækja, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu.

Staða skuldara ekki ljós

Sigurður segir að ekki liggi fyrir hver staða skuldara sé og ekki liggi fyrir hve stór hópur fólks með lánsveð sé í yfirveðsettum eignum. Því sé erfitt að segja til um það hvort lánsveð séu innheimtanleg. Það skapi vanda við það að meta hver endanlegur kostnaður sé af því að færa lánsveð niður.   

Það vantar að taka saman heildarstöðu skuldara óháð veðveitanda. Þar af leiðandi er ekki hægt að fullyrða um það hvort lánin séu innheimtanleg,“ segir Sigurður.  

Sigurður Erlingsson
Sigurður Erlingsson Ernir Eyjólfsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert