Rétt ákvörðun hjá Steingrími

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra.
Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

„Það var hárrétt ákvörðun hjá fyrrverandi fjármálaráðherra að fara eftir tillögu Bankasýslu ríkisins og sameina rekstur SpKef Landsbankanum,“ sagði Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra í sérstakri umræðu um uppgjör SpKef og Landsbankans á Alþingi.

„Reikningurinn vegna þessarar sorgarsögu, sögu síðustu ára Sparisjóðsins í Keflavík lendir á kunnuglegum stað, hjá skattgreiðendum,“ sagði hún ennfremur.

Málshefjandi var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Eftir að tekið hefur verið tillit til fjármögnunarkostnaðar ríkisins, að ríkið mun á endanum þurfa að leggja til 25 milljarða vegna SpKef. Það er þá reikningur sem lendir á okkur öllum, á öllum skattgreiðendum þessa lands inni í fjárlögum,“ sagði Bjarni í umræðunni.

„Frá því að ríkið hóf afskipti af SpKef, og því var fylgt eftir með þeim hætti að þetta yrði án kostnaðar fyrir ríkið og þar með íslenska skattgreiðendur, þá þróuðust mál þannig á um það bil tveimur árum að reikningur vegna þess - sem ég vil nefna einkaskuldir - lendir hjá skattgreiðendum á endanum. Það er hið alvarlega í þessu máli,“ sagði Bjarni.

Hann vildi fá að vita á hverju það mat byggðist í upphafi að íslenska ríkið myndi ekki verða fyrir neinum kostnaði.

Saga sparisjóðsins harmsaga

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að saga Sparisjóðsins í Keflavík sé harmsaga.

„Það er ekki sérstaklega beysin útgerð að ætla að slá sérstakar keilur á því að gera allt tortryggilegt sem að því kom að reyna að greiða úr þeim ósköpum sem þarna höfðu gerst. Aðkoma ríkisins sem slíks og fjármálaráðuneytisins að málefnum Sparisjóðsins í Keflavík, og síðar SpKef, er algjörlega í samræmi við neyðarlögin og þá aðferðafræði sem var mótuð haustið 2008. Byggir á þeim lögheimildum og pólitísku yfirlýsingum sem þá voru gefnar um að allar innistæður í bönkum og sparisjóðum yrðu tryggðar og varðar. Og að bankarnir sem féllu yrðu endurreistir og að ríkið myndi styðja við bakið á sparisjóðunum,“ sagði Steingrímur.

„Þetta er sorgarsaga. Mesta ábyrgð á henni bera að sjálfsögðu stjórnendur þessa sparisjóðs. Miðað við upplýsingar sem koma fram þessa dagana þá ættu menn þeim nákomnir að ganga hægt um gleðinnar dyr þangað til þau kurl eru komin til grafar,“ sagði hann ennfremur.

Augljóst að stór mistök hafi verið gerð

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að aðgerð Steingríms hafi ekki verið í samræmi við neyðarlögin. „Neyðarlögin voru sett fram haustið 2008 í neyð. Þessar aðgerðir sem hér eru gerðar voru ekki í neinni neyð,“ sagði hann.

Guðlaugur segir umræðuna snúast um hvað hafi verið gert eftir hrun. „Það voru augljóslega gerð stór mistök og kostnaðurinn lendir á skattgreiðendum. Þetta eru tvö og hálf Vaðlaheiðargöng sem fara í kostnaðinn við þetta. Þetta slagar hátt upp í rekstrarkostnaðinn á Landspítalanum,“ sagði Guðlaugur Þór.

Bjarni segir að tilgangurinn með umræðunni hafi verið ræða um ákvarðanir sem stjórnvöld tóku eftir hrun. Að veita Sparisjóðnum í Keflavík undanþágu til að starfa þótt að hann hafi ekki uppfyllt eiginfjárkröfur og ákvörðun stjórnvalda um að stofna SpKef.

„Það kemur í ljós að menn eru ekki tilbúnir til að ræða þetta. Menn eru ekki tilbúnir til að horfast í augu við eigin ábyrgð í þessum málum. Menn vísa til forsögunnar til þess að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi verið illa rekinn. Við vissum það fyrirfram. Þess vegna þurfti hann að skila inn rekstrarleyfi sínu og það er allt saman í rannsókn,“ sagði Bjarni og bætti við að menn verði að komast til botns í því hvort menn hafi gert mistök.

Staðið við gefnar skuldbindingar

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra sagði í lok umræðunnar að stjórnvöld hefðu ekki staðið frammi fyrir auðveldum ákvörðunum hvað varðar sparisjóðinn. „Það er rétt að ítreka að stofnun SpKef sparisjóðs helgast af því einu að stjórnvöld hugðust standa við gefnar skuldbindingar um vernd innistæðna,“ sagði hún og bætti við að það hefði ekki verið réttlát niðurstaða ef innistæðueigendur í Sparisjóðnum í Keflavík hefðu ekki fengið innistæður sínar tryggðar.

Oddný sagði þingmenn Sjálfstæðisflokksins reyna að kasta ryki í augu almennings og beina sjónum frá ábyrgð og hegðun stjórnenda sjóðsins, og þeim sem auðvelduðu þeim hátternið. Og draga athygli frá raunverulegum ástæðum þess að ríkissjóður verði að greiða 19 milljarða kr. vegna falls Sparisjóðsins í Keflavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert