Tókust á um sumarþing

Frá Alþingi. Mynd úr safni.
Frá Alþingi. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar

Þingmenn tókust á um þinglok í umræðum um störf þingsins í dag. Stjórnarþingmenn segja að sumarþing sé alfarið í boði stjórnarandstöðunnar. „Ef að þetta sumarþing er í boði stjórnarandstöðunnar þá ætla ég nú að taka mér það bessaleyfi og afboða þetta sumarþing í hvelli,“ sagði Ragnheiður E. Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að samkomulag um að ljúka þingstörfum hafi komist í uppnám þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra  hafi snúið aftur til landsins í gær, en hún tók þátt í tveggja dag fundi forsætisráðherra Norðurlandanna.

„Allt er komið á byrjunarreit á nýjan leik. Það er svo, frú forseti, að verkstjórinn yfir þessari ríkisstjórn, hæstvirtur forsætisráðherra, virðist ekki geta tekið friðinn þegar ófriður er í boði,“ sagði Ásmundur.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir koma til greina að fara eftir 64. gr. laga um þingsköp Alþingis. Þar segir að ef umræður dragist úr hófi fram getur forseti úrskurðað að ræðutími hvers þingmanns skuli ekki fara fram úr ákveðinni tímalengd.

Þar segir ennfremur að forseti geti stungið upp á að umræðum sé hætt og einnig geti forseti lagt til, hvort heldur í byrjun umræðu eða síðar, að umræðum um mál skuli lokið að liðnum ákveðnum tíma. Þá kemur fram að níu þingmenn geti krafist þess að greidd séu atkvæði um það umræðulaust hvort umræðu skuli lokið, umræðutími eða ræðutími hvers þingmanns takmarkaður.

„Virðum kjarnann í hinum lýðræðislegu leikreglum sem við störfum hér eftir,“ sagði Mörður.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Mörður hafi sýnt á spilin sín. „Hann er að segja okkur frá því að nú hafi menn þau áform uppi, að einhvertímann þegar að ríkisstjórnarliðið er farið að þreytast, og það er nú orðið dálítið þreytt eins og við höfum tekið eftir, þá ætli 9 þingmenn að koma hér fram með tillögu um það að ljúka umræðunni og setja á atkvæðagreiðslu. Þetta hygg ég að sé nú einsdæmi í þingsögunni en nú vitum við það,“ sagði Einar.

Þá bætti hann við að þingmenn séu enn að takast um sjávarútvegsfrumvörpin á Alþingi, því málin séu algjörlega óútkljáð.

„Sumarþing er í boði stjórnarandstöðunnar. Höfum það alveg á hreinu,“ segir Magnús Orri Scrhram, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann bætti við að minnihluti Alþingis vilji koma í veg fyrir það að arðurinn af fiskveiðiauðlindinni renni til allra en ekki sumra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir eðlilegt að stjórnarandstaðan vilji fá að ræða stór mál sem komi bæði seint inn og séu algjörlega ófullburða. „Það eru þjóðarhagsmunir, það eru allra hagsmunir að menn berjist gegn frumvörpum sem gera m.a. út af við lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki og önnur fyrirtæki sem tengjast sjávarútveginum,“ sagði hún.

Ólína Þorvarðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, segir minnihluta þingsins halda meirihlutanum í gíslingu. „Auðvitað er það alveg ljóst að þetta sumarþing sem haldið verður hér það er ekki í boði ríkisstjórnarinnar. Það er svikalaust í boði stjórnarandstöðunnar,“ sagði Ólína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert