Lífríkið í Vatnsmýrinni dafnar

Snemma í vor var ráðist í framkvæmdir á friðlandinu í Vatnsmýri, m.a. til að endurheimta varp fugla sem hafa á undanförnum árum yfirgefið svæðið, t.a.m. var grafið sýki til að loka varpland af og koma í veg fyrir umferð manna og katta. Þetta hefur gefið góða raun og lífríkið hefur tekið við sér og nú eru hátt í tuttugu kríupör sem verpa í eyju sem varð til í framkvæmdunum ásamt tjaldi sem hefur gert sér hreiður þar.

Þær Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor í vistfræði, og Hrund Ólöf Andradóttir, dósent í umhverfisverkfræði, eru ánægðar með hvernig verkefnið fer af stað. Í framhaldinu þurfi þó að sporna við skógarkerfli, illskeyttu illgresi sem hefur skotið rótum á svæðinu og kæfir aðrar plöntur og kemur í veg fyrir varp. Þá væri mögulegt að veita vatni af húsþökum nýbygginga á háskólasvæðinu að mýrinni sem myndi auka vatnsgæðin þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert