Sagðist saklaus en ekki sadisti

Maðurinn var skilinn eftir fyrir utan fjölbýlishús við Laugaveg.
Maðurinn var skilinn eftir fyrir utan fjölbýlishús við Laugaveg. mbl.is/Ómar Óskarsson

Karlmaður ákærður fyrir stórfellda líkamsárás í íbúð sinni við Laugaveg í febrúar síðastliðnum neitaði sök við aðalmeðferð málsins í morgun. Hann sagði að í ákæruskjali væri lýst ofbeldisfullum sadista og ef það ætti við um hann hlyti sakarskráin að bera þess merki, sem hún geri ekki.

Manninum, sem fæddur er árið 1984, er gefið að sök að hafa aðfaranótt mánudagsins 27. febrúar 2012 í íbúð á fjórðu hæð og í stigagangi fjölbýlishúss við Laugaveg slegið karlmann um fertugt eitt högg í kviðinn ií íbúðinni, tekið hann hálstaki og dregið hann niður tröppur í stigagangi af fjórðu hæð hússins, eða þar til fórnarlambið tók að blána í framan. Ofan við stigapall á annarri hæð hafi hann síðan losað takið með þeim afleiðingum að fórnarlambið féll niður tröppurnar.

Þá á maðurinn að hafa, þar sem fórnarlambið lá á stigapallinum, sparkað í eða trampað á höfði þess með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut lífshættulega höfuðáverka, höfuðkúpubrot, blæðingu undir höfuðkúpubroti, glóðarauga á vinstra auga auk minni áverka.

Jafnframt er maðurinn, auk tveggja til viðbótar, ákærður fyrir að hafa látið farast fyrir að koma manninum til bjargar, með því að hafa flutt fórnarlambið út úr stigaganginum og yfirgefið manninn ósjálfbjarga og lífshættulega slasaðan á gangstétt utan við húsið, án þess að koma honum til hjálpar.

Ekki húsum hæfur vegna drykkju

Fyrstur gaf skýrslu í morgun meintur árásarmaður. Beðinn að lýsa því sem gerðist umrædda nótt sagði hann manninn, fórnarlambið í málinu, hafa komið á heimili sitt, verið þar með mikinn hroka og leiðindi. Meðal annars hafi hann tekið fullan landabrúsa og þambað í einum teig og var svo staðinn að því að stela úr íbúðinni, síma og netlykli. „Það kom ekki annað til greina en að vísa honum út, enda ekki húsum hæfur út af drykkju og dópi og rugli.“

Hann sagðist hafa fengið félaga sína til að aðstoða sig við að leiða manninn út, sem hafi dottið utan í húsgögn og verið mjög valtur. Vegna muna sem hægt væri að stela var ákveðið að fylgja manninum alla leið út.

Þá lýsti hann því að maðurinn hefði orðið reiður á leiðinni niður stigann, slitið sig lausan og fallið niður marmaratröppurnar. Þar hefði hann legið vankaður en með meðvitund. Þá sagðist hann hafa tekið í hendurnar á honum og stutt manninn út og skilið hann eftir úti á gangstétt. „Ég sá að hann var með meðvitund og að ranka við sér, ég hélt að hann myndi fara. Ég sagði við hann að hann ætti ekki að stela frá fólki og hann baðst afsökunar.“

Hann sagðist engan grun hafa haft um að maðurinn væri slasaður. „Hefði ég vitað það hefði ég komið honum til hjálpar. Ég beitti engu ofbeldi, þetta var slys og ekkert annað. Ég er algjörlega saklaus í þessu máli. [...] Ég hafði ekkert á móti þessum manni og enga ástæðu til að ráðast á hann. En ég var í fullum rétti til að vísa honum út. Ég er sár yfir því að ákæruvaldið trúi þessu upp á mig.“

Aðalmeðferðin heldur áfram en reiknað er með að henni ljúki í dag.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, sækir málið af hálfu ákæruvaldsins.
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, sækir málið af hálfu ákæruvaldsins. Morgunblaðið/Sigurgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert