Í varðhald fyrir að hrinda og sparka í höfuð manns

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is / Hjörtur

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir manni sem vísaði öðrum úr samkvæmi við Laugaveg aðfaranótt laugardagsins 27. febrúar og er sakaður um að hafa hrint manninum niður stiga, sparkað m.a. í höfuð hans með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund og slasaðist lífshættulega.

Með skófar á andliti

Í greinargerð lögreglu, sem birt er með niðurstöðu Hæstaréttar, kemur fram að aðfaranótt mánudagsins 27. febrúar sl. hafi lögreglu borist tilkynning um meðvitundarlausan mann framan við hús í Reykjavík. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi maðurinn verið með meðvitund en hann hafi verið blóðugur í munni og á nefi. Þá hafi hann verið með kúlu á enninu og það hafi kurrað í honum svo hann hafi ekki getað tjáð sig. Þá hafi hann verið með far í andliti sem hafi líkst skófari og rendur í andliti, klór á hálsi og mar á vinstri hendi.

Er komið hafi verið á slysadeild hafi hann verið kominn með stórt glóðarauga á vinstra auga. Samkvæmt bráðabirgðavottorði hafi verið gerð tölvusneiðmynd af heila sem hafi m.a. sýnt höfuðkúpubrot og blæðingu undir höfuðkúpubroti. Meðvitund hafi versnað og hafi tölvusneiðmynd verið endurtekin sem hafi m.a. sýnt vaxandi blæðingu hægra megin. Hafi verið gerð aðgerð til að fjarlægja blóðið úr heilanum og stöðva blæðingu ef hægt væri.

Var í lífshættu - enn óviðræðuhæfur

Aðgerðin hafi gengið vel en brotaþoli hafi farið á gjörgæslu og hafi verið í lífshættu að sögn lækna. Þá segja þeir að hann hefði ekki lifað af ef ekki hefði komið til aðgerðar. Hann liggi nú á almennri deild og sé ekki talinn vera í lífshættu þótt ástand hans sé mjög tvísýnt. Hann móki meira og minna og sé ekki að fullu áttaður og sé óviðræðuhæfur.

Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að brotaþoli hafi verið í samkvæmi í íbúð kærða aðfaranótt mánudagsins 27. febrúar. Upp hafi komið deilur í íbúðinni sem hafi orðið til þess að kærði hafi ákveðið að vísa honum út úr íbúðinni. Frásögn kærða af því sem hafi gerst í kjölfarið sé á þá leið að er hann hafi verið að vísa brotaþola út hafi hann streist á móti og kippt sér til og við það fallið niður tröppur á stigagangi. Hann hafi því næst dregið hann út en brotaþoli hafi verið með rænu þegar hann skildi við hann fyrir utan og talið hann vera að ranka við sér. Tveir aðilar bera um að atvik hafi verið önnur. Við skýrslutöku hafi kærði greint á sama veg frá atburðum og í fyrri skýrslu og kvað brotaþola vera að ljúga upp á sig sökum deilna þeirra á milli sem kærði hafi ekki skýrt frekar.

Fyrst beri að nefna framburð vitnis, B, hann hafi farið út úr íbúðinni ásamt kærða og öðrum manni, C, er vísa hafi átt brotaþola út úr íbúðinni. Lýsti hann atvikum svo að kærði og brotaþoli hafi byrjað að rífast inni í íbúðinni og kærði kýlt brotaþola í kviðinn.

Blánaði í framan nokkrum sinnum

Því næst hafi kærði reynt að koma brotaþola út úr íbúðinni og tekið hann hálstaki en B hafi þótt það fulllangt gengið og þess vegna hafi hann og C farið fram á gang. B lýsi því að brotaþoli hafi blánað nokkrum sinnum í framan á leiðinni niður en kærði hafi haldið honum í kverkataki mestan hluta leiðarinnar. Á einum stigapallinum hafi brotaþoli fengið kast og byrjað að sveiflast eins og hann væri að berjast fyrir lífi sínu og er kærði hafi losað um takið á hálsinum hafi brotaþoli fallið niður á milli stigapalla. Þá hafi kærði sparkað eða traðkað á höfðinu á honum svo að það small í höfðinu. Að því loknu hafi þeir allir þrír hjálpast að við að bera hann út úr húsinu.

Í málinu liggi fyrir myndskeið úr eftirlitsmyndavélum sem sýni útidyrnar að húsinu. Á myndskeiðinu megi sjá hvar þrír menn séu að flytja þann fjórða út úr húsinu. Einn maður haldi undir hendur mannsins og dragi hann út en hinir tveir opni dyrnar og fylgi honum eftir.

Rannsóknin er langt á veg komin. Búið er að taka skýrslur af nær öllum vitnum málsins. Beðið er eftir niðurstöðum frá tæknideild svo og áliti réttarmeinafræðings um þá áverka sem brotaþoli hafi hlotið umrædda nótt. Þá er vonast til þess að unnt verði að taka skýrslu af brotaþola sem fyrst en hann hafi enn sem komið er ekkert geta tjáð sig.

Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar er maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 30. mars næstkomandi.

Niðurstaða Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert