Gagnrýndi hátíðarhöldin 17. júní

Kjartan Magnússon í ræðustóli á fundi borgarstjórnar.
Kjartan Magnússon í ræðustóli á fundi borgarstjórnar. mbl.is/Ómar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega á borgarstjórnarfundi í dag hvernig staðið hefði verið að hátíðarhöldum í Reykjavík vegna þjóðhátíðardagsins 17. júní. Benti hann meðal annars á að almennrar óánægju gætti meðal borgarbúa með framkvæmd hátíðarhaldanna. Þá ekki síst að ákveðið væri að leggja af kvöldskemmtunina sem áratugahefð væri fyrir. Þessu yrði að breyta aftur til fyrra horfs.

Kjartan benti ennfremur á að á opinberum vettvangi hefði verið talað um metnaðar- og hugmyndaleysi skipuleggjenda hátíðarinnar, stöðnunarbragur hefði verið yfir hátíðarhöldunum og við blasti uppgjöf borgarinnar gagnvart verkefninu. Miklir hnökrar hefðu orðið á framkvæmd morgunathafnarinnar á Austurvelli. Ýmsir dagskrárliðir hefðu hafist fyrr en auglýst hefði verið, tímasetningar ekki staðist og samskipti skipuleggjenda greinilega ekki verið í lagi.

Þá hefði ekki verið við hæfi að sögn Kjartans þegar formaður þjóðhátíðarnefndar og ÍTR hefðu reynt að réttlæta það hvernig staðið var að málum með því að benda á síðsumarskemmtanir eins og Gleðigönguna og Menningarnótt sem væru skemmtilegir viðburðir en kæmu þó ekki í stað þjóðhátíðardagsins. 

Sagðist Kjartan velta því fyrir sér, þegar dregið væri úr hátíðarhöldum á sjálfan þjóðhátíðardaginn með þessum hætti en vísað á aðrar hátíðir, hvort Samfylkingin væri svo heillum horfin í þráhyggju sinni við að koma Íslandi inn í Evrópusambandið að hún væri vísvitandi að draga úr viðburðum sem tengdust sjálfstæði og fullveldi Íslands.

Lagði hann áherslu á að endurskoða þyrfti alla þætti hátíðarhaldanna 17. júní frá grunni með það fyrir augum að tryggja að betur yrði staðið að framkvæmdinni á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert