Kristján: Hefðum mátt vera sneggri

Kristján Möller
Kristján Möller Friðrik Tryggvason

Kristján Möller, þingmaður Samfylkingar og formaður atvinnuveganefndar, segir að heppilegra hefði verið að jafn veigamikið mál og veiðigjaldafrumvarpið hefði komið fyrr fyrir þingið. Hann boðar útboð á Norðfjarðargöngum fyrir tekjur af sérstaka veiðigjaldinu.

„Ég vona að allir á Alþingi læri af málinu vegna þess að af því má draga mikinn lærdóm. Menn eiga ekki að koma með mál inn á síðustu stundu eins og nú er raunin með mörg stór mál. Þetta skrifast á reikning Alþingis. Ég er búinn að starfa þar í 12-13 þar og þetta er ekkert öðruvísi en áður.“

- Hvernig bregstu við þeim málflutningi sjálfstæðismanna að helmingun veiðigjaldsins sé sigur fyrir þá og stjórnarandstöðuna?

„Ég vil segja það fyrst að það samkomulag er mjög gott ef allir geta lýst sig sigurvegara yfir því. Um niðurstöðu þessa veiðigjalds er það að segja að það er mikil vinna eftir af hálfu veiðigjaldanefndar og þess samráðshóps þingflokka sem mun starfa með nefndinni á næstu árum. Það er mikil vinna eftir að uppfæra þessi gögn svo við höfum undir höndum þau nýjustu og bestu.“

- Hvenær mun endurskoðunin liggja fyrir?

„Veiðigjöldin fyrir næsta fiskveiðiár eru sett föst á ákveðna krónutölu. Það er gert meðal annars vegna þess að það er eftir mikil vinna við að afla gagna sem eru yngri en Hagstofan hefur upp á að bjóða. Slík gagnaöflun er mjög mikilvæg. Síðan gerist það næst að fyrir þar næsta fiskveiðiár þarf meðal annars að nota vísitölur sem eru meðalvísitala sjávarútvegs í janúar til apríl.

Þegar aprílmánuður er liðinn á næsta ári er hægt að reikna út meðalvísitöluna. Endurskoðun fer ekki fram fyrr en þær tölur liggja fyrir.“

- Þannig að hún verður ekki ljós fyrr en eftir næstu kosningar?

„Í raun og veru.“

- Hvernig á að ráðstafa þessu fé?

„Töluverður hluti almenna veiðigjaldsins á að standa undir rekstri grunnstofnana sjávarútvegsins, eins og Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar. Þar er ég að tala um 4,5-5 milljarða króna. Hvað sérstaka veiðigjaldið varðar hefur verið boðað í fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar strax á næsta ári að hluti þess verði notaður til að bæta samgöngur úti á landi. Auðvitað fagna ég því.

Hækkun fasteignaverðs í byggðalögum víða um land sýnir að bættar samgöngur og bættir innviðir á landsbyggðinni er byggðastefna sem bragð er að. Hún er jafnframt til vitnis um að við þurfum að setja meira fé í samgönguframkvæmdir og klára þá staði sem eftir eru. Þá er að tala um Norðfjörð, Seyðisfjörð og sunnanverða Vestfirði, þar með talin Dýrafjarðargöng. Við sjáum Norðfjarðargöng til útboðs í haust og að framkvæmdir hefjist strax næsta vor og Dýrafjarðargöng í beinu framhaldi af því,“ segir Kristján Möller.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert