Vilja ekki hreindýr á Vestfirði

Mörgum líst illa á hugmyndir um hreindýr á Vestfjörðum.
Mörgum líst illa á hugmyndir um hreindýr á Vestfjörðum. mbl.is/RAX

Ólafur R. Dýrmundsson, landnýtingarráðunautur Bændasamtaka Íslands, telur hugmyndir um að flytja hreindýr til Vestfjarða fráleitar. Hann hefur eindregið varað við flutningi hreindýra inn á önnur svæði, en uppi hafa verið áform um slíkt. Þetta kemur fram í samtali við Ólaf í Bændablaðinu og vefsíðan Bæjarins bestu vitnar í.

Ólafur segir engin kjörlendi vera fyrir hreindýr á Vestfjörðum líkt og á Austurlandi, en hann hefur einnig áhyggjur af sjúkdómum sem gætu fylgt dýrunum. Ólafur telur flutning á hreindýrum til Vestfjarða einnig geta fallið undir dýravelferðarmál, auk þess sem hreindýr gætu valdið skaða á túnum og á skógræktarsvæðum.

Halldór Runólfsson yfirdýralæknir segir að Matvælastofnun yrði að taka afstöðu til flutninga á hreindýrum, en tekur undir sjónarmið Ólafs um sjúkdómahættu. Hann segir hreindýr vera jórturdýr sem geta borið með sér sjúkdóma að austan, garnaveiki og riðuveiki, en viðurkennir þó að ekki standi miklar rannsóknir að baki afstöðu Matvælastofnunnar til flutninganna. 

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Vesturlandi og Vestfjörðum, segir Landgræðsluna áður hafa svarað fyrirspurnum um flutning hreindýra til Vestfjarða, en Landgræðslan leggst gegn hugmyndum um flutning hreindýra af gróðurverndarástæðum. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert