Þjóðin sem skar Alþingi úr snörunni

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það skyldi þó aldrei hafa verið þjóðin sem losaði úr snörunni Alþingi og þær ríkisstjórnir sem setið höfðu frá hausti 2008, beittar ítrekuðum þvingunum af Bretum, Hollendingum, Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á heimasíðu sinni.

Þar gagnrýnir Ögmundur grein Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings í Fréttablaðinu í gær en þar sagði Guðni meðal annars að bresk og hollensk stjórnvöld hefðu losað Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, úr Icesave-snörunni með því að neita að samþykkja Icesave I samningana með fyrirvörum Alþingis haustið 2009 en Ólafur undirritaði lögin um þá samninga.

„Ef Guðni Th. Jóhannesson ætlar sér að skrifa fræðibækur um þessa atburði er ég hræddur um að hann þurfi að bæta þekkingu sína og þar með fræðin. Þetta leyfi ég mér að segja með fullri virðingu fyrir honum og skrifum hans um ýmis efni,“ segir Ögmundur. Hann segist ekki telja skrif Guðna endurspegla mikinn skilning á Icesave-málinu.

Þá segir Ögmundur það ennfremur rangt að afstaða til Icesave-samninganna hafi alltaf verið í samræmi við pólitískar línur eins og fram kemur í grein Guðna. „Í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði voru á Icesave-tímanum nokkrir þingmenn andvígir samningunum og einn ráðherra sagði af sér embætti af þessum sökum. Þetta er söguleg staðreynd sem ekki verður horft framhjá. Allra síst af hálfu sagnfræðings.“

Heimasíða Ögmundar Jónassonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert