Leiðarljósið slokknar á RÚV

Leiðarljós, sem hefur verið á dagskrá RÚV árum saman, hverfur af skjánum frá og með þriðjudeginum 3. júlí næstkomandi. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu sáu dreifingaraðilar þáttanna sér ekki hag í að endurnýja samninga auk þess sem óvissa er með réttindi vegna tónlistar í þeim.

Leiðarljós hefur verið á dagskrá Ríkisútvarpsins síðan árið 1995 og hafa verið sýndir rúmlega 4.200 þættir alls hérlendis. Til þess að gefa tryggum aðdáendum vísbendingu um örlög fólkins í Leiðarljósi verður hægt að nálgast upplýsingar um afdrif þeirra á vefsvæði Ríkisútvarpsins. 

Þá, og til þess að bæta aðdáendum Leiðarljóss upp missinn, mun Ríkisútvarpið hefja sýningar á ný á Herstöðvarlífi (e. Army Wives) á sama tíma og Leiðarljós var sýnt, frá mánudegi til fimmtudags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert