Rannsókn lokið á fimm banaslysum

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert

Rannsóknarnefnd umferðarslysa lauk nýverið rannsókn fimm banaslysa í umferðinni sem urðu árið 2011. Vegna slysanna telur nefndin mikilvægt að koma á framfæri varnaðarorðum í þeirri viðleitni að koma megi í veg fyrir sambærileg slys, sem tengjast m.a. börnum, ölvunarakstri og hraðakstri.

Fram kemur á heimasíðu nefndarinnar að það sé mjög hættulegt þegar vegfarendur gangi eða hlaupi meðfram ökutækjum sem séu á hreyfingu. Sérstaklega þurfi að gæta varúðar þegar börn eigi í hlut. Ökumenn geti hæglega misst sjónar af börnum vegna smæðar þeirra. Þá geti hegðun barna verið óútreiknanleg þar sem þau geri sér ekki grein fyrir hættum af ökutækjum.

Hafi öryggið í fyrirrúmi

„Í ágúst 2011 varð sviplegt banaslys þar sem ung telpa varð fyrir bifreið við Mið-Sel í Rangárvallasýslu og annað slys varð árið 2002 á tjaldsvæði þar sem ung telpa fórst. Vegna þessara atvika vill nefndin brýna fyrir foreldrum og forráðamönnum barna að sýna aðgæslu og hafa öryggið í fyrirrúmi,“ segir nefndin.

Þá kemur fram að, Rannsóknarnefnd umferðarslysa hafi í skýrslum sínum bent á mikilvægi þess að ökumenn forðist að ofstýra bifreiðum með þeim afleiðingum að þær velta. Þegar ökutæki veltur margfaldist líkindi á alvarlegum meiðslum ökumanns og farþega. Vill nefndin koma þessari ábendingu á framfæri vegna banaslyss sem varð á Möðrudalsöræfum í apríl 2011. Orsök þess slyss megi einnig rekja til langrar ferðar, þreytu og áfengisneyslu.  

Í öðru slysi, sem varð á Suðurfjarðavegi við Kambanes, fórst ökumaður eftir að bifreið hans hafnaði útaf. Segir að hann hafi ekki notað bílbelti og hafi verið ölvaður.

Meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni

„Ölvunarakstur og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni. Áfengisneysla, jafnvel í litlu mæli í bland við ónægan svefn, skerðir ökuhæfni verulega og getur leitt til þess  að ökumenn sofna undir stýri. Því er afar brýnt að ökumenn forðist að aka þreyttir auk þess sem rannsóknarnefndin ítrekar að akstur undir áhrifum áfengis er óheimill samkvæmt lögum. Of mörg dæmi eru um slys af þessum toga þar sem akstur eftir áfengisdrykkju og vökur endar með útafakstri og brýnt að allir séu á varðbergi gagnvart þessari hættu,“ segir nefndin.

Þá segir að í slysi sem varð á Akureyjarvegi þann 15. apríl 2011 hafi ungur ökumaður látist er hann kastaðist út úr bifreið sinni þegar hún valt utan vegar. Orsakir slyssins megi sennilega rekja til hraðaksturs og bágborins ástands hjólbarða bifreiðarinnar. Þá segir að ökumaðurinn hafi ekki verið spenntur í öryggisbelti.

„Að lokum vill nefndin benda ökumönnum á að gæta sérstakrar aðgæslu við vega- og gatnamót. Í slysi sem varð á Norðurlandsvegi í Víðidal var fólksbifreið ekið inn á þjóðveginn beint í veg fyrir vörubifreið. Harður árekstur varð á milli bifreiðanna og lést ökumaður fólksbifreiðarinnar, 68 ára gömul kona. Mikil hætta er á alvarlegum meiðslum í slysum við vega- og gatnamót. Umferðarhraði á þjóðvegunum er um og yfir 90 km/klst. og hliðar ökutækja verja ökumenn og farþega ekki slíku höggi, verði árekstur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert