Þingmenn Sjálfstæðisflokks styðja Freyju

Freyja Haraldsdóttir
Freyja Haraldsdóttir Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lýst því yfir að þeir styðji Freyju Haraldsdóttur en hún hefur sagt það óeðlilegt í lýðræðisríki að fólk sem ekki getur kosið án aðstoðar geti ekki valið hver veitir þá aðstoð.

Fjallað var um mál Freyju á mbl.is og í kjölfarið sendi hún öllum þingmönnum bréf þar sem hún vakti athygli á „þeim alvarleika sem felst í því að neita fötluðu sem þarf aðstoð í kjörklefa að velja sína eigin aðstoðarmanneskju í leynilegum lýðræðislegum kosningum“.

Freyja vísar til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þar segir að aðildarríkin skuli tryggja fötluðum stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til að njóta þeirra til jafns við aðra.

Hún segir ólíðandi að innanríkisráðuneytið skuli skýla sér á bak við lagatexta sem brýtur mannréttindaákvæði þegar það hafnaði kröfu Blindrafélagsins um að blint fólk geti kosið með aðstoð manneskju sem það velur sjálft.

Þá skorar hún á þingmenn að leggja fram tillögu að lagabreytingu eins fljótt og auðið er.

Frumvarp lagt fram fyrir fáeinum árum

Svar barst frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, sem segist sammála Freyju og að hann sé tilbúinn að flytja lagabreytingu á næsta þingi. „Ég er sannfærður um að margir þingmenn séu tilbúnir að vera með á slíku máli,“ segir Guðlaugur.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sendi svo einnig frá sér svar og sagðist taka heilshugar undir með Guðlaugi.

Þriðji sjálfstæðismaðurinn til að svara var Birgir Ármannsson en hann benti á að frumvarpið væri í raun tilbúið og hefði verið lagt fram af Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir fáeinum árum. Það hefði hins vegar ekki fengið afgreiðslu.

Í frumvarpi Sigurðar Kára segir: „Ef kjósandi skýrir kjörstjórn svo frá að hann sé eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal sá er kjósandi nefnir til veita honum aðstoð til þess í kjörklefanum, enda er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli.“

Birgir segir jafnframt í bréfi sínu að auðvelt væri að byggja á þessum grunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert