Lítur út fyrir góða kjörsókn

Bessastaðir aðsetur forseta Islands.
Bessastaðir aðsetur forseta Islands. mbl.is/Brynjar Gauti

Íslendingar kjósa sér forseta í dag. Kjörstaðir verða opnaðir milli klukkan 9 og 12 árdegis. Þeir verða opnir mislengi eftir aðstæðum. Á kjörskrá eru 235.284 einstaklingar. Kosið verður í 75 sveitarfélögum í sex kjördæmum. Stefnt er að því að talning atkvæða hefjist formlega klukkan 22:00 þegar öllum kjörstöðum hefur verið lokað.

Kosningaþátttaka hefur verið með besta móti það sem af er. Um klukkan 22:30 í gærkvöldi höfðu borist 35.164 utankjörfundaratkvæði og þar af voru 19.937 í Reykjavík.

„Þetta eru flest utankjörfundaratkvæði sem ég man eftir,“ segir Bergþóra Sigmundsdóttir, kjörstjóri utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Reykjavík. Hún hefur reynslu af kosningum frá árinu 1993. Í gær kusu um 3.500 manns í Reykjavík að sögn Bergþóru.

Getur verið vísbending um mikla kosningaþátttöku

„Miðað við það sem fólk hefur að segja er það á leiðinni í sumarfrí og vill vera búið að kjósa áður. Svo gæti þetta einnig verið vísbending um mikla kosningaþátttöku,“ segir Bergþóra.

Í síðustu forsetakosningum, árið 2004, var kosningaþátttaka með dræmara lagi en þá var kjörsókn 62,9%.

Forsetaframbjóðendur sögðust ætla að beita sér fyrir bættri umræðuhefð, samstöðu, lýðræði, gagnsæi, mannréttindum og í þágu minnihlutahópa, sé tekið mið af orðum þeirra á síðasta framboðsfundi fyrir forsetakosningarnar sem fram fór í Sjónvarpinu í gærkvöldi.

Kosningavaka verður á mbl.is í allan dag. Fylgst verður með kjörsókn og nýjustu tölur birtar jafn óðum og þær berast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert