Hátíðahöld rólega af stað

Fólk að tjalda á Bestu hátíðinni í gær
Fólk að tjalda á Bestu hátíðinni í gær mbl.is/Óli Már Aronsson

Töluverður fjöldi fjölskyldu- og útihátíða fer fram víða um landið núna um helgina og því má gera ráð fyrir að mikið verði um að vera í umferðinni á þjóðveginum.

Stærsta útihátíð helgarinnar er að öllum líkindum Besta útihátíðin sem haldin er á Gaddstaðaflötum við Hellu.

Í dag fer síðan fram hjólreiðakeppnin Tour de Hvolsvöllur, á milli Reykjavíkur og Hvolsvallar, og biður Umferðarstofa ökumenn að sýna aðgæslu nálægt hjólreiðamönnunum.

Allt til fyrirmyndar

Markaðshelgin fer fram í Bolungarvík um helgina. Að sögn lögreglunnar á Ísafirði er töluvert um aðkomufólk í Bolungarvík. Umferðin hefur þó gengið vel, ekkert hefur verið um ölvunarakstur og segir lögreglan allt vera til fyrirmyndar.

Á Vopnafirði fer svo fram hátíðin Vopnaskak en að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum hefur hátíðin farið rólega af stað og umferðin gengið ágætlega.

Fagna goslokum

Í Vestmannaeyjum fagna menn nú goslokum, en þar fer fram Goslokahátíð um helgina. Að sögn lögreglunnar í Eyjum var margt samankomið í bænum í gær og þá mun mikill fjöldi fólks hafa komið þangað með Herjólfi, en lögreglan á von á fleiri gestum á morgun. Þegar blaðamaður hafði samband við lögregluna í Eyjum í gærkvöldi var skemmtanahald rétt að byrja og hafði á þá allt gengið að óskum.

Þá má ekki gleyma Írskum dögum á Akranesi en þegar haft var samband við lögregluna þar í bæ í gærkvöldi fengust þær upplýsingar að fólk væri að tínast inn í bæinn, hátíðin færi rólega af stað og fjöldinn væri enn sem komið viðráðanlegur. Þá mun umferðin hafa gengið vel í gær, engar umferðarteppur og ekkert um ölvunarakstur.

Loks ber að nefna Þjóðlagahátíð á Siglufirði en að sögn lögreglu á Akureyri hefur umferðin í umdæminu gengið vel.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert