Atvinnuleysið mælist 4,8%

Skráð atvinnuleysi í júní var 4,8% en að meðaltali voru 8.704 atvinnulausir í júní og fækkaði atvinnulausum um 1.122 frá maí eða um 0,8 prósentustig. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi í júlí verði svipað og í júní og verði á bilinu 4,5%-4,9%.

Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 838 að meðaltali og konum um 284. Atvinnulausum fækkaði um 592 á höfuðborgarsvæðinu en um 530 á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 4,3% meðal karla og 5,3% meðal kvenna, segir á vef Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysið 7,5% á Suðurnesjum en 1,2% á Norðurlandi vestra

Atvinnuleysið var 5,5% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 6,3% í maí. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 3,5% og minnkaði úr 4,5% í maí. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 7,5% og minnkaði úr 9,4% í maí. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra 1,2%.

Alls voru 8.817 manns atvinnulausir í lok júní. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 7.902. Fækkun atvinnulausra í lok júnímánaðar frá lokum maí nam 1.037 en 723 færri karlar voru á skrá og 314 færri konur en í maílok.

Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár var 3.521 í júnílok og fækkaði um 441 frá lokum maí.

1.265 ungmenni án atvinnu

Alls voru 1.265 á aldrinum 16-24 ára atvinnulausir í lok júní eða um 14% allra atvinnulausra. Í lok maí voru 1.544 á þessum aldri atvinnulausir og hefur þeim fækkað um 279 milli mánaða. Í lok júní 2011 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 2.032 og fækkar því um 767 milli ára í þessum aldurshópi.

Alls voru 1.587 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok júní, þar af 902 Pólverjar eða um 57% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Í maílok sl. var 1.731 erlendur ríkisborgari á atvinnuleysisskrá og fækkar því um 144 erlenda ríkisborgara á atvinnuleysisskrá. Flestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í byggingariðnaði eða 235.

302 laus störf skráð hjá Vinnumálastofnun

Alls voru 302 laus störf í almennri vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun í lok júní, flest fyrir ósérhæft starfsfólk eða 102 og 74 störf fyrir þjónustu- sölu og afgreiðslufólk. Auk lausra starfa hjá Vinnumálastofnun voru 53 störf laus á Starfatorgi þar af 41 sérfræðistarf sem ekki er sérstaklega miðlað af Vinnumálastofnun.

Alls voru 53 ráðnir í störf í almennri vinnumiðlun í júní og 462 ráðnir í júní vegna átaksins Vinnandi vegur. Heildarfjöldi ráðninga vegna átaksins Vinnandi vegur á tímabilinu mars til júní var 1.384.

Í júní voru samtals 1.551 manns í vinnumarkaðsúrræðum, þar af 1.384 í gegnum átakið Vinnandi vegur, 139 í öðrum starfsþjálfunar-, reynsluráðningar- og átaksverkefnum, og 28 í frumkvöðlastarfi innan fyrirtækja/ stofnana. Um er að ræða úrræði sem eru greidd af Atvinnuleysistryggingasjóði, en viðkomandi einstaklingar teljast ekki með í atvinnuleysistölum.

Í grunnúrræðum og ýmsum námskeiðum voru 605 manns í júní, þar af 175 í ýmsum grunnúrræðum, í námsúrræðum og ýmsum námskeiðum voru 290 og í starfstengdum úrræðum (atvinnutengdri endurhæfingu, sjálfboðaliðastarfi og þróun eigin viðskiptahugmyndar) voru 140.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert