Aflinn minnkar um 25,7% á milli ára

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum júnímánuði, metinn á föstu verði, var 25,7% minni en í júní 2011. Það sem af er árinu hefur aflinn aukist um 18,5% miðað við sama tímabil 2011, sé hann metinn á föstu verði.

Aflinn nam alls 52.220 tonnum í júní 2012 samanborið við 80.959 tonn í júní 2011, samkvæmt frétt Hagstofu Íslands.

Meira af þorski en minna af karfa

Botnfiskafli dróst saman um tæp 9.100 tonn frá júní 2011 og nam tæpum 28 þúsund tonnum. Þar af var þorskaflinn rúm 12.200 tonn, sem er um 2.600 tonnum meiri afli en á fyrra ári. Ýsuaflinn nam tæpum 1.900 tonnum sem er 123 tonnum minni afli en í júní 2011. Karfaaflinn dróst saman um rúm 2000 tonn samanborið við júní 2011 og nam tæpum 2.700 tonnum.

Um 4.000 tonn veiddust af ufsa sem er um 1.400 tonna samdráttur frá júní 2011. Annar botnfisksafli nam um 3.700 tonnum og dróst saman um rúm 2.000 tonn frá fyrra ári.

Afli uppsjávartegunda nam rúmum 20.400 tonnum, en 40.500 tonn af uppsjávarafla veiddist í júní 2011. Tæpum 13.600 tonnum var landað af makríl í júnímánuði, samanborið við 25.000 tonn í júní 2011. Um 6.800 tonn veiddust af síld sem er samdráttur frá fyrra ári um 8.600 tonn.

Flatfiskaflinn var rúm 2.000 tonn í júní 2012 sem er nær sami afli og í sama mánuði árið áður. Skel- og krabbadýraafli nam um 1.800 tonnum sem er aukning um tæp 300 tonn frá júní 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert