Lögregla fær ekki að sækja kött

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um húsleit á heimili manns sem sakaður er um að hafa brotist inn á heimili fyrrverandi sambýlismanns síns og tekið í vörslu sína kött, en deilt er um eignarhald á honum.

Forsaga málsins er sú að mennirnir standi í skilnaði og deilur hafa staðið um köttinn. Meðal annars hafi maðurinn lagt fram beiðni til héraðsdóms til að fá köttinn tekinn úr höndum sambýlismanns síns fyrrverandi. Beiðninni var hafnað 10. maí þar sem talið var að manninum hefði ekki tekist að sanna eignarhald sitt.

Maðurinn fór þá inn á heimili sambýlismannsins 28. júní, með aðstoð iðnaðarmanna sem voru að vinna við húsið. Lyftu þeir honum upp með vinnulyftu að svölum hans. Þar hafi maðurinn kallað á köttinn og fjarlægt hann af heimilinu.

Lögreglan telur rökstuddan grun fyrir því að maðurinn hafi tekið köttinn með ólögmætum hætti. „Það sé mat lögreglu að nauðsynlegt sé að gera húsleit hjá kærða, í því skyni að leggja hald á köttinn B og koma honum í hendur kæranda.“

Hvorki rannsóknarhagsmunir né almannahagsmunir

Héraðsdómur hafnaði kröfunni þar sem lögregla gerði ekki grein fyrir því hverjir rannsóknarhagsmunir séu í húfi fyrir því að orðið verði við kröfu um húsleit. „Það að í kröfu lögreglu sé vísað til þess að nauðsynlegt sé að gera húsleit hjá kærða í því skyni að leggja hald á köttinn og koma honum í hendur kæranda geta að mati dómsins ekki talist rannsóknarhagsmunir.“

Hæstiréttur segir ljóst að deilt sé um eignarréttinn á kettinum og úr slíkum einkaréttarlegum ágreiningi verði að leysa fyrir dómstólum. „Þótt lögregla hafi vald til að rannsaka hvort varnaraðili kunni að hafa framið refsivert brot með brottnámi kattarins umrætt sinn og gera nauðsynlegar ráðstafanir í tengslum við þá rannsókn, leiða almannahagsmunir ekki til þess að krafa sóknaraðila um húsleit hjá varnaraðila nái fram að ganga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka