Ekki allir sáttir við ráðherraskiptin

Dagur B. Eggertsson og Oddný Harðardóttir ræða saman á flokksstjórnarfundinum …
Dagur B. Eggertsson og Oddný Harðardóttir ræða saman á flokksstjórnarfundinum en Dagur styður tillögu formanns flokksins um að Oddný víki sæti í ríkisstjórn fyrir Katrínu Júlíusdóttur. mbl.is/Sigurgeir S.

Ekki voru allir á eitt sáttir á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um breytingartillögu Jóhönnu Sigurðardóttur þess efnis að Oddný G. Harðardóttir viki sæti í ríkisstjórn fyrir Katrínu Júlíusdóttur sem snýr aftur úr fæðingarorlofi 1. október næstkomandi.

Soffía Sigurðardóttir, flokksstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar, kvaddi sér hljóðs á fundinum og sagðist vera alfarið á móti skiptunum. Sagði hún að Oddný hefði sinnt starfinu með sóma og þótt Katrín væri „vel hæf til að vera ráðherra, forsætisráðherra, jafnvel forseti - þá erum við það líka mörg hér inni“.

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarninar, sagði að flokkur sem kenndi sig við jafnaðarstefnu gæti ekki með góðri samvisku hrakið konu sem snýr aftur úr fæðingarorlofi aftast í hringiðuna. Sagðist hann styðja Katrínu í ráðherrastól, en bætti jafnframt við að Oddný hefði gegnt embættinu af stakri prýði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert