Gjástykki valið fyrir marsfara

Frá borunum í Gjástykki.
Frá borunum í Gjástykki.

Alþjóðasamtök áhugafólks um marsferðir völdu fyrir tólf árum Gjástykki til æfinga fyrir marsfara framtíðarinnar. Þetta segir Ómar Ragnarsson og bendir á að gildi Gjástykkis sé ógnað af þungri sókn virkjanamanna.

Í færslu á vefsvæði sínu segir Ómar að Neil Armstrong hefði aldrei komið til Íslands að æfa sig fyrir tunglferðina ef búið hefði verið að virkja í Öskju, eins og stendur til. Eins verði Íslendingar hugsanlega af því að fá marsfara framtíðarinnar til æfinga hér verði virkjað í Gjástykki.

Ómar minnist þess að Alþjóðasamtök áhugafólks um marsferðir (e. Mars Society) völdu Gjástykki fyrir tólf árum sem æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar. Hann segist hafa hitt sendinefnd samtakanna þegar þau völdu svæðið.

„En að sjálfsögðu verður keppt að því ötullega að taka nokkra tugi starfa í „orkufrekum iðnaði“ á Bakka fram yfir það gildi sem svæðið hefur ósnortið sem einstætt á heimsvísu, - eina svæðið þar sem hægt er að upplifa sköpun Íslands sem afleiðingu af reki meginlandsflekanna og valið hefur verið fyrir marsfara framtíðarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert