Busar sendir heim útataðir í lýsi

Busavígsla í Menntaskólanum á Ísafirði
Busavígsla í Menntaskólanum á Ísafirði Af vef Bæjarins besta

Nýnemar voru sendir heim í dag úr Menntaskólanum á Ísafirði eftir uppákomu í tengslum við svokallaða busavígslu.

„Það er venja fyrstu kennsludagana að nýnemar séu látnir haga sér eftir ýmsum hefðum og er vanalega mjög saklaust. En í morgun tóku örfáir nemendur sig til, án samráðs við nokkurn, og fóru að hella lýsi yfir höfuð þeirra sem komu inn í skólann,“ útskýrir Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari í samtali við Bæjarins besta.

„Þegar ég áttaði mig á þessari uppákomu, sem kom öllum að óvörum, kallaði ég nemendur á sal og ekki var annað hægt en að senda nýnemendur heim þar sem þeir voru útataðir í lýsi.“

Að auki var þriðju bekkingum gert að þrífa upp lýsissletturnar. „Með þessu var tjón lágmarkað í skólanum en ég veit ekki hvernig er með föt nemenda þar sem ekki er auðvelt að ná lýsi úr,“ segir Jón Reynir spurður hvort tjón hafi orðið á innanstokksmunum skólans vegna þessa. Hann ítrekar að einungis hafi örfáir nemendur staðið fyrir uppátækinu og ekki meint neitt illt með því. „Stjórn nemendafélagsins kom hvergi nærri þessu og var miður sín yfir þessari uppákomu eins og kennarar og stjórnendur skólans. Þetta virðist vera saklaust en oft er ekki hugsað út í afleiðingar við svona uppátæki. En vonandi læra þau af þessu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert