Skorar á bankann að birta listann

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson mbl.is/Ómar Óskarsson

Jón Ásgeir Jóhannesson ritar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann fjallar um meintan lista Arion banka hf. yfir fyrirtæki sem bankinn hafi talið lífvænleg og viljað „taka frá eigendum sínum til að laga ójöfnuð á milli gamla Kaupþings og nýja Kaupþings“, eins og segir í greininni.

Jón Ásgeir segir að frásögn Víglundar Þorsteinssonar, sem kom fram fyrir nokkrum dögum og sakaði Arion banka hf. um ofangreint, hafi verið kunnugleg. Jón Ásgeir segist sjálfur hafa heyrt þessi orð haustið 2010 frá fyrrverandi starfsmanni Arion banka þegar hann hafi hringt í sig og tilkynnt að bankinn hygðist taka Haga hf. af fjölskyldu Jóns Ásgeirs.

„Á listanum um aðila sem á að kála“

Jón Ásgeir segist hafa spurt umræddan starfsmann hvers vegna bankinn hygðist gera þetta en fátt hafi orðið um svör og starfsmaðurinn hafi viðurkennt að það væru engin rök fyrir því að aðrir gætu rekið Bónus betur en Jón Ásgeir og fjölskylda. Síðan segir Jón Ásgeir að hann hafi átt snörp orðaskipti við starfsmanninn sem hafi svo sagt við sig: „Þú ert á listanum!“ Þegar spurt var hvaða lista hafi starfsmaðurinn sagt: „Nú listanum um aðila sem á að kála.“

Segir of marga vita af listanum til að hægt sé að fela hann lengur

Í greininni segir Jón Ásgeir í lokin: „Ég skora hér með á Arion banka hf. að birta listann og segja frá hver bjó hann til. Það eru of margir sem vita að hann er til - það er ekki hægt að þegja lengur. Hvaða listi var svo merkilegur að það var óhætt að taka eignir af mönnum sem kunnu með þær að fara og höfðu byggt upp og í ofanálag selja þær eignir á lægra verði en bankinn gat selt þær á?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka