Fögnuður á tónleikum á Akureyri

Það var góð stemning á stórtónleikum í Gilinu á Akureyri í gærkvöldi, en þar fögnuðu Akureyringar og gestir þeirra 150 ára afmæli bæjarins. Talið er að vel yfir 10 þúsund manns hafi verið á tónleikunum.

Á tónleikunum spiluðu nokkrar hljómsveitir sem starfað hafa á Akureyri. Þar má nefna Baraflokkinn, Dægurlagapönkhljómsveitina Húfu, Skriðjökla og 200.000 naglbíta. Í gestgjafahlutverki voru hinir geðþekku Hvanndalsbræður.

Hápunktur kvöldsins var svo flugelda- og ljósasýning um miðnættið. Að sögn lögreglunnar á Akureyri var talsverður erill hjá henni en allt hafi gengið vel.

Margir voru einnig á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Að sögn lögreglu fór allt vel fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert