Skora á þingflokkinn að endurskoða ákvörðunina

mbl.is

Félög ungra sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi skora á þingflokk Sjálfstæðisflokksins að endurskoða þá ákvörðun sína að skipta um þingflokksformann í ályktun sem send hefur verið til fjölmiðla. Segja félögin ákvörðunina ótrúlega á þessum tímapunkti.

Eins og mbl.is hefur greint frá var ákveðið á fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag að Illugi Gunnarsson tæki við stöðu þingflokksformanns af Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Illugi er þingmaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður en Ragnheiður Elín er þingmaður Suðurkjördæmis.

Að ályktuninni standa félög ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði, Vestmannaeyjum, Reykjanesbæ, Árnessýslu, Grindavík, Rangárvallasýslu, Hornafirði, Garði, Sandgerði og Vogum

Ályktunin í heild:

„Ungir sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi harma þá ótrúlegu ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að skipta um þingflokksformann flokksins.
 
Það vekur furðu að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi ákveðið á þessum tímapunkti að gera breytingar á þingflokksformanni, sérstaklega í ljósi þess að Suðurkjördæmið er sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins nú um stundir.
 
Félög ungra sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi skora á þingflokkinn að endurskoða þessa ákvörðun með hliðsjón af því að nú þegar eru bæði formaður og varaformaður flokksins úr kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert