Telja samningaleiðina hafa brugðist

Ef ekki er hægt að ná samkomulagi í makríldeilunni á milli pólitískra forystumanna er spurning hvort hægt sé að gera sér vonir um að það sé mögulegt á næsta viðræðufundi sem fyrirhugaður er í október. Þetta er mat Ians Gatts, framkvæmdastjóra samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, í samtali við breska ríkisútvarpið BBC.

Eins og mbl.is hefur fjallað um reyndist viðræðufundur á milli sjávarútvegsráðherra Íslands, Noregs og Færeyja og sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins sem fram fór í London í gær árangurslaus. Að sögn Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra, sem sat fundinn fyrir Íslands hönd, þokaðist ekkert í deilunni á fundinum en málið verður tekið upp aftur á fundi strandríkja í október.

„Þetta gerir það enn mikilvægara en áður að Evrópuþingið samþykki refsiaðgerðir gegn Íslandi og Færeyjum í þessum mánuði og að enginn tími fari til spillis hjá Evrópusambandinu við að koma þeim þegar í framkvæmd,“ segir Gatt ennfremur og vísar þar til frumvarps um refsiaðgerðir gegn ríkjum sem stunda ekki sjálfbærar fiskveiðar að mati sambandsins en mbl.is fjallaði ítarlega um það í gær.

Segir niðurstöðuna hafa verið fyrirsjáanlega

Haft er eftir sjávarútvegsráðherra Skotlands, Richard Lochhead, að niðurstaða viðræðnanna í gær hafi valdið vonbrigðum en hafi hins vegar því miður verið fyrirsjáanleg. Hann segir að reynslan til þessa sýni að Íslendinga og Færeyinga hafi skort vilja til þess að ná málamiðlun í deilunni og komast að sanngjörnu samkomulagi um makrílveiðarnar. Enn eina ferðina hafi leið samningaviðræðna nú brugðist.

„Það er óviðunandi fyrir hvaða ríki sem er að stefna í hættu sjálfbærni deilistofna með því að ákvarða gríðarlega auknar veiðiheimildir. Og ef við höldum áfram að horfa upp á eiginhagsmunasemi og þrjósku einkenna afstöðu Íslands og Færeyja þarf Evrópusambandið að geta gripið til nauðsynlegra aðgerða,“ segir Lochhead en hann kallaði einnig eftir því á meðan viðræðurnar stóðu yfir í gær að þeirri vinnu yrði flýtt að veita sambandinu heimildir til þess að grípa til refsiaðgerða.

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, sem sat fundinn í gær fyrir hönd ríkja sambandsins, og Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsstjóri Noregs, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu eftir að viðræðunum var slitið en þar segir að niðurstaðan sé þeim gríðarleg vonbrigði. „Við munum halda áfram að vinna náið saman í þessu lykilmáli eftir öllum nauðsynlegum leiðum.“

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert