Óheiðarleiki sem ekki fór fyrir dóm

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að öllum hafi verið ljóst að Magma Energy var að reyna að fara á bak við lögin með því að koma sér fyrir í skrifborðsskúffu innan EES-svæðisins þegar félagið keypti HS Orku.

„Þetta var óheiðarleiki, sem samfélagið almennt gerði sér grein fyrir.  Aldrei var látið á þetta reyna fyrir dómstól en ég velti því fyrir mér hver hin endanlega niðurstaða hefði þá orðið.

Ég neita því ekki að ég hefði óttast niðurstöðuna enda í seinni tíð oft verið tilefni til að spyrja hvort geti verið, að réttarkefið á Íslandi sé að færast nær vangaveltum um form og einkum og sér í lagi formgalla og þá jafnframt fjær annars vegar augljósum ásetningi þess sem meint brot fremur og hins vegar augljósum markmiðum þess sem lögin og reglurnar settu,“ sagði Ögmundur á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af því tuttugu ár eru liðin frá því að héraðsdómstólarnir voru settir á laggirnar.

Vísar Ögmundur í skýrslu nefndar Hjördísar Hákonardóttur um lögmæti kaupa Magma á HS Orku.

„Magma fór sem sagt á svig við vilja löggjafans en gæti komist upp með undanbrögð í þröngri túlkun á lagabókstafnum og með hliðsjón af formlega skráðum eignatengslum. Með öðrum orðum, formlega séð kunni salan að standast þótt veruleikinn hrópi á allt annað!

Sjálfum finnst mér einhlítt að horfa beri til vilja löggjafans, til anda laganna -  ekki síst þegar samfélagslegir hagsmunir eru í húfi; þegar samfélagið er í vörn gagnvart ásælni fjármagnsins og hefur smíðað lög, beinlínis sjálfu sér til varnar,“ segir Ögmundur í ávarpi sínu á ráðstefnunni.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra ávarpaði ráðstefuna.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra ávarpaði ráðstefuna. Af vef innanríkisráðuneytisins
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka