Skilur vel ákvörðun Ólafar

Þingkonurnar Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, ræddu pólitíska framtíð sína og kosningaveturinn sem er framundan í þættinum Sprengisandi í dag.

Ólöf ræddi ákvörðun sína um að hætta á þingi í vor og flytja til Sviss þar sem eiginmaður hennar starfar líkt og fram kom í Sunnudagsmogganum í gær. Katrín segist skilja vel ákvörðun Ólafar og segist oft velta fyrir sér hvort hún eigi að halda áfram í stjórnmálum.

Þær eru sammála um að von sé á átakaþingi en þingkosningar fara fram í vor.

Að sögn Ólafar væri ráð að hrúga ekki jafnmörgum málum inn í þingið líkt og gert er svo hægt sé að ljúka afgreiðslu þeirra. Katrín segir að síðasta vetur hafi verið deilt um nánast allt, hvort heldur sem það voru mál sem hægt var að ná saman um eður ei.

Ólöf segir að það hafi verið erfiðasta verk hennar á þingi að setja gjaldeyrishöftin á og hún segir rétt að afnema þau hraðar en gera á.

Alþingi verður sett á þriðjudaginn og hefst þingsetningarathöfnin kl. 13.30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. Séra Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup prédikar og séra Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónar fyrir altari ásamt biskupi Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur. Organisti Dómkirkjunnar, Kári Þormar, leikur á orgel og kammerkór Dómkirkjunnar syngur við athöfnina.

Að guðsþjónustu lokinni ganga forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Forseti Íslands setur Alþingi, 141. löggjafarþing, og að því loknu flytur forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, ávarp. Þingsetningarfundi verður síðan frestað til kl. 16.00.

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert