Leituðu fjár með snjóflóðastöngum

Aðeins er farið að hægja á verkefnum björgunarsveita þrátt fyrir að bálhvasst sé víða um land ennþá. Alls hafa 24 björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar verið við störf í dag og milli 70-80 manns. Á annað hundrað ferðamenn fengu aðstoð við að komast ferða sinna og sauðfénaðar var leitað með snjóflóðastöngum í Aðaldal.

Útköll hafa verið um því sem næst allt land en ástandið virðist hafa verið verst í Vestmannaeyjum og á Norður- og Norðausturlandi.

Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að sinnt hafi verið á bilinu 60-70 aðstoðarbeiðnum vegna foks og á annað hundrað ferðamenn verið aðstoðaðir við að komast leiðar sinnar.

Má til dæmis nefna að 34 ferðamenn voru fluttir úr bílum sínum norðan við Dettifoss og á Grímsstaði á Fjöllum þar sem þeir munu eyða nóttinni. „Nú eru nokkrar björgunarsveitir að aðstoða starfsmenn RARIK við að koma mannskap á staðinn til að gera við línur og sinna öryggishlutverki,“ segir Jónas Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Landsbjörg.

Hann segir að í dag hafi nokkrar beiðnir borist frá bændum vegna sauðfjár sem hafi fennt. „Það þurfti að nota snjóflóðastangir við að finna fé í Aðaldal og var margt af því dautt er það fannst,“ segir Jónas. Hann segist reikna með því að björgunarsveitir á Norðausturlandi þurfi að aðstoða bændur á morgun því óttast er að tugi sauðfjár hafi fennt.

„En það er ekki það eina sem þarf að gera á morgun því að tugir bíla standa nú auðir við vegi á Norður- og Norðausturland eftir að ökumenn þurftu að yfirgefa þá. Sumir gætu þurft aðstoð til að komast í þá, en við vonumst auðvitað til þess að það komi ekki til þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert