Illugi vill gera hlé á ESB-viðræðum

Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson mbl.is

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, sagði á Alþingi í dag að eðlilegt væri að gera hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það væri ekki hægt í dag að taka upplýsta ákvörðun varðandi upptöku evru vegna þess hversu mikil óvissa ríkti um framtíð samstarf evruríkjanna.

Mörður Árnason alþingismaður gerði nýja skýrslu Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum að umfjöllunarefni á Alþingi í dag. Hann sagði að samkvæmt skýrslunni væru valkostir Íslands tveir, að taka upp evru eða notast áfram við krónu. Kostir og gallar væru við báðar leiðirnar, en þó væri ljóst að krónan yrði áfram í einhvers konar höftum og yrði aldrei látin fljóta aftur.

„Þess vegna er rétt að spyrja þá sem hafa barist fyrir því að hætta aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, af hverju þeir vilja útiloka annan af þessum tveimur kostum að órannsökuðu máli?“ sagði Mörður.

„Vegna stöðu evrunnar og vegna þess hvaða grundvöllur er undir þeirri mynt þá er augljóst að nú þegar hafa orðið miklar breytingar og það munu að öllum líkindum verða ennþá meiri breytingar á samstarfi evru-ríkjanna,“ sagði Illugi.

„Veltum fyrir okkur ef búið væri að ganga frá öllum þessum þáttum sem ég nefndi varðandi sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál og við þyrftum að taka afstöðu til þessarar spurningar núna, yrði það upplýst umræða? Nei, vegna þess að svo stóran hluta vantar í þá umræðu sem er: Hvert verður fyrirkomulag ríkjasambands evru-ríkjanna? Það er nokkuð langt að menn sjái til lands hvað það varðar. Augljóst er að breytingar munu verða. Ef við Íslendingar eigum að taka upplýsta umræðu um þetta er skynsamlegt að gera hlé á þessum viðræðum, sjáum hvernig fram vindur og síðan köllum við eftir umboði frá þjóðinni ef menn vilja halda áfram, en þá þannig að hægt sé að taka einhverja merkingabæra umræðu og komast að einhverri skynsamlegri niðurstöðu,“ sagði Illugi.

Flokkssystir hans, Unnur Brá Konráðsdóttir, sagði að aðildarviðræðurnar við ESB snerust um fleira en um evru. Þær snerust m.a. um auðlindir og fullveldi þjóðarinnar. Hún sagði líkt og Illugi, að mikil óvissa væri um framtíð evrusamstarfsins. Hún sagðist vera þeirrar skoðunar að „við ættum að draga umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til baka“. Skýrsla Seðlabankans breytti engu um það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert