Fullyrðingar um kostnað fjarri öllum sanni

Horft yfir svæðið þar sem ætlunin er að nýr Landspítali …
Horft yfir svæðið þar sem ætlunin er að nýr Landspítali rísi.

Í tilkynningu frá Nýjum Landspítala segir að ljóst sé að fullyrðingar um að áætlaður kostnaður við stækkun Landspítala geti orðið allt að 145 milljarðar kr. séu fjarri öllum sanni.

„Vegna frétta í fjölmiðlum í gær um áætlaðan kostnað við stækkun Landspítala, vill verkefnastjórn Nýs Landspítala koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:

 Vinnu við  forhönnun fyrirhugaðra bygginga vegna stækkunar Landspítala er nú að ljúka.  Um er að ræða þrjár sjúkrahúsbyggingar (meðferðarkjarna, rannsóknarhús og sjúkrahótel) samtals um 76 þús fm og auk þess bílastæðahús fyrir um 560 bíla.  Forhönnunin sem er um 20-25% hönnun, byggist á vinningstillögu ráðgjafateymisins SPITAL og þarfagreiningu Landspítala á nauðsynlegri stærð einstakra rýma.     

 Á forhönnunarstigi hefur kostnaðaráætlun verið unnin fyrir hverja byggingu fyrir sig, auk kostnaðar við  gatnagerð, veitukerfi og lóð. Verkfræðistofan Efla hefur haft umsjón með gerð kostnaðaráætlana fyrir hönd ráðgjafateymisins.

 Áætlaður kostnaður vegna ofangreindra framkvæmda er 45 milljarðar kr. á verðlagi í janúar 2012.  

Innifalið í kostnaðaráætlun er 15-18% álag vegna óvissuþátta í samræmi við hönnunarstig verkefnisins.

 Ráðgjafahópurinn mun skila endanlegum forhönnunargögnum ásamt uppfærðri kostnaðaráætlun í október og mun NSLH fá óháða aðila til að rýna þá áætlun. 

 Hluti núverandi tækjabúnaðar og sá búnaður sem Landspítali kaupir hér eftir, kemur til með að vera fluttur í nýja byggingu.  Tækjabúnað þarf að endurnýja hvort sem flutt er í nýtt húsnæði eða ekki.

Heildarvirði tækjabúnaðar Landspítala eftir að nýja húsnæðið verður tekið í notkun, er áætlað um 12 milljarðar kr.  

 Frumáætlun um kostnað við viðhald, rif og endurnýjun eldri bygginga á Hringbrautarlóð er um 11 milljarðar kr. og er sú áætlun í endurskoðun.  Hönnunarvinna vegna þeirra framkvæmda er ekki hafin og ákvörðun um tímasetningu framkvæmda liggur ekki fyrir.

 Engar áætlanir hafa verið gerðar um byggingar í 2. áfanga deiliskipulags, enda er sá áfangi ætlaður fyrir mögulega þróun spítalans í framtíðinni.

 Í ljósi framangreindra staðreynda er ljóst að fullyrðingar um að áætlaður kostnaður  við stækkun Landspítala geti orðið allt að 145 milljarðar kr. eru fjarri öllum sanni,“ segir í tilkynningu frá Nýjum Landspítala ohf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert