Sat inni með Martin Luther King

Forrest og Cynthia Johnson gista á gistiheimilinu Eiríkur Rauði á …
Forrest og Cynthia Johnson gista á gistiheimilinu Eiríkur Rauði á meðan Íslandsdvöl þeirra stendur. Mbl.is/Golli

Bandarísku hjónin Forrest og Cynthia Johnson eru 85 ára en ennþá að kynna sér heiminn. Þau eru á Íslandi í fyrsta sinn og hafa sökkt sér í íslenskar bókmenntir. Þau eru ánægð með hvað Barack Obama nýtur mikils velvilja Íslendinga en sjálf tóku þau þátt í réttindabaráttu svartra ásamt Martin Luther King.

Áhugi Cynthiu fyrir Íslandi kviknaði m.a. við lestur bóka Arnaldar Indriðasonar, en Forrest hefur verið að lesa Njálu, Egils sögu og segist tengja við Bjart í Sumarhúsum því sjálfur hafi hann alltaf vilja vera eigin herra. Það var ástæða þess að hann gerðist prestur til að losna úr hernum. Hann vildi vera frjáls og óháður, en preststarfið leiddi hann til Georgíu þar sem hann barðist fyrir réttindum svartra og var varpað í fangelsi ásamt dr. Martin Luther King. 

Heillaðist af bókum Arnaldar Indriðasonar

„Lýsingar Arnaldar á náttúrunni og landinu, það var það sem vakti minn áhuga. Ég á hins vegar engar rætur að rekja til Skandinavíu, eins og Forrest,“ segir Cynthia aðspurð hvers vegna þau hjónin ákváðu að koma til Íslands í fyrsta sinn hálfníræð og vera hér í mánuð. Þau eru bæði fædd og uppalin í Bandaríkjunum, en foreldrar Forrests voru Norðmaður og Svíi. „Við höfðum komið til Skandinavíu í gamla daga, en mér finnst ég eiga rætur að rekja hingað líka svo mig langaði til að kynnast landinu,“ segir Forrest.

Meðalaldur ferðamanna sem koma til Íslands er í kringum fertugt samkvæmt könnunum Ferðamálastofu og því sennilega ekki margir eldri en þau hjónin sem sækja landið heim, hvað þá til að dvelja svona lengi. Þau bera aldurinn afskaplega vel og hafa gengið miðborgina þvera og endilanga auk þess að skreppa í réttir á Skeiðum um síðustu helgi. Þar hafði Forrest þó smááhyggjur af því að konu hans yrði rutt um koll í hamaganginum. 

Fundu miskunnsaman samverja á Hringbraut

Mestu svaðilfarirnar upplifðu þau samt í miðri borginni, þegar fyrsta haustlægðin gekk yfir en þann dag fóru þau í Öskjuhlíðina. „Við vorum á leið til baka á brúnni yfir [Hringbraut] og það var svo sterkur vindur að við gátum varla staðið, við þurftum að toga okkur áfram eftir brúarhandriðinu,“ segir Cynthia. 

„Þá ekur ung íslensk kona framhjá okkur og tekur svo U-beygju, snýr við og býður okkur far. Hún var með fimm mánaða gamalt barn í aftursætinu og þurfti að stoppa á miðri götu og tefja umferðina til að hjálpa okkur, en enginn í hinum bílunum flautaði. Þarna fannst okkur við finna miskunnsama samverjann á Íslandi,“ segir Cynthia og biður fyrir kæra þakkarkveðju til ungu konunnar, sem þau gleymdu að spyrja til nafns.

Sinn eigin herra eins og Bjartur

Þau Forrest og Cynthia hafa ferðast víða um heim og vonast til að geta gert það sem lengst. Þau fluttu ung að árum til Skotlands þar sem þau eignuðust fyrsta barn sitt. Að loknu námi ferðuðust þau með bíl, barn og tjald um alla Evrópu, frá Noregi til Júgóslavíu. Þegar síðari heimsstyrjöldin skall á gekk Forrest í sjóherinn en kunni illa við sig sem hermaður. Af máli hans má ráða að hann hafi ætíð verið mikill friðarsinni og kunnað illa við yfirvald.

„Ég hef verið að lesa Sjálfstætt fólk hér á Íslandi og ég finn fyrir mikilli tengingu við Bjart í Sumarhúsum, vegna þess að hann vildi vera eigin herra. Þegar mér bauðst liðsforingjastaða í sjóhernum eftir stríð sagði ég „Nei takk, ég vil vera frjáls“. Þess vegna gerðist ég prestur. Svo lengi sem þú ætlar þér ekki að vera biskup eða komast í eitthvert embætti, þá nýturðu mikils frelsis sem prestur.“

Hrifust af Martin Luther King

Prestsstarfið leiddi þau hjónin víða, m.a. til Japans. Forrest segist hafa verið hikandi að flytja þangað svo skömmu eftir stríð en svo heilluðust þau bæði af landi og þjóð. Þegar þau fluttu aftur heim til Bandaríkjanna var Víetnamstríðið í uppsiglingu. Forrest segist hafa haft slæma tilfinningu fyrir því frá upphafi, eftir dvölina í Asíu, og bauð hann sig tvisvar fram til fulltrúaþings Bandaríkjanna til að berjast gegn því, en hlaut ekki kjör.

Hann hélt sig því við prestsstarfið og í gegnum það drógust þau inn í réttindabaráttu svartra. Forrest hélt til Georgíu til að starfa með Martin Luther King, sem sjálfur var prestur. „Hann var stórkostleg manneskja. Við vorum jafnaldrar, báðir rúmlega þrítugir á þessum tíma, en ég upplifði hann sem afskaplega hreinskiptinn, jarðbundinn, auðmjúkan og ærlegan mann.“ 

Í Georgíu var Forrest handtekinn ásamt dr. King og fleirum, en þeim var gert að sök að trufla almannaró með ólöglegum mótmælum. Þeir sátu inni í nokkra daga. Þannig vill til að nafnið Forrest er nokkuð algengt í suðurríkjum Bandaríkjanna, en einn stofnenda Ku Klux Klan bar það nafn, Nathan Bedford Forrest. Fangaverðinum sem skráði King og félaga inn í fangelsið fannst því lítið til Forrest koma. „Hann sagði að það væri skömm að mér,“ segir Forrest og hlær.

Mest spennandi dagur ævinnar

Forrest hélt þó áfram að beita sér fyrir málstaðinn þótt honum væri illa tekið. Hann minnist sérstaklega eins atviks sem sé lýsandi fyrir þennan tíma. Þá var hann á gangi ásamt svörtum félaga sínum úti á götu í Georgíu þegar maður sem hann hafði stuttu áður rætt við í kirkju í nágrenninu ók á eftir þeim og reyndi að keyra þá niður. 

„Hann var öskrandi af bræði og ég rétt náði að ýta vini mínum úr veginum. En það áhugaverða er, að ef hann hefði ekið á okkur, þá hefði okkur verið kennt um það. Þannig voru reglurnar, svarti maðurinn átti engan rétt og þar sem ég var að vinna með þeim þá var ég alveg eins slæmur.“

Þegar talið berst að hinni frægu I have a Dream-ræðu Kings, sem hann flutti í Washington 1963, lifnar yfir Cynthiu. „Við vorum þar! Við hjálpuðum til við að undirbúa atburðinn. Ég hef alltaf sagt að næst á eftir brúðkaupsdeginum okkar þá var þetta mest spennandi dagur ævi minnar. Hann var ótrúlegur í alla staði.“

Ferðalögin færa manni skilning

Það þarf því ekki að koma á óvart að þau hjónin eru einlægir stuðningsmenn Barracks Obama og gleðjast yfir því hve mikillar velvildar forsetinn virðist njóta hér á landi. „Hugsaðu þér bara breytingarnar sem hafa orðið á okkar ævi,“ segir Forrest. „Hér áður fyrr var svart fólk tekið af lífi án dóms og laga, en í dag er forsetinn okkar svartur. Og er það ekki kaldhæðnislegt að konan hans sé afkomandi þræla? Það finnst mér stórkostlegt.“

Forrest og Cynthia segjast þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að ferðast svo mikið um heiminn og kynnst svo mörgu fólki í leik og starfi. „Því meira sem við ferðumst, því meiri skilning öðlumst við á öðru fólki,“ segir Cynthia. Þau hafa jafnan þann háttinn á að dvelja lengi á hverjum stað og reyna að kynnast heimamönnum. 

Í Reykjavík heilluðust þau m.a. af listasöfnum Kjarvals, Einars Jónssonar og Ásgríms Jónssonar og segja synd að list þeirra sé ekki þekktari í Bandaríkjunum. Þau eru líka sérstaklega áhugasöm um kirkjur og eru yfir sig hrifin af Hallgrímskirkju. „Það er yndisleg kirkja. Það sem mér finnst best við hana er hvað hún er látlaus. Þú færir eitthvað með þér með því að ganga þangað inn. Krossinn við altarið er mjög lítill, en það er frábært, því það þýðir að þú þarft að leita að honum, hann stekkur ekki í fangið á þér,“ segir Forrest.

Íslendingar andlega þenkjandi þjóð

Eftir upplifun sína hér segjast þau hafa mælst til þess við yngri dóttur sína að hún færi til Íslands, en hún er prestur líkt og faðir hennar og hyggur á rannsóknarleyfi. „Hún sagði við mig: „Já en pabbi, Íslendingar eru ekki trúaðir.“ En ég ætla að segja henni að hún hafi rangt fyrir sér,“ segir Forrest. Hann segist hafa svipaða upplifun af Íslendingum eins og Japönum þegar þau bjuggu þar.

„Ég held að Íslendingar og Japanir séu einhverjar trúuðustu þjóðir sem ég hef kynnst. Þið farið kannski sjaldan í kirkju, en þið virðist leggja mikið upp úr frelsi, jafnrétti og friði. Þetta eru andleg málefni og ég skynja Íslendinga sem mjög andlega þjóð.“

Til gamans fylgir hér með upptaka frá 28. ágúst 1963, einum besta degi í líf þeirra Forrests og Cynthiu. Þá flutti Martin Luther King 17 mínútna langa ræðu um draum sinn fyrir betri tíð framtíðarkynslóða, eina mögnuðustu og áhrifamestu ræðu allra tíma.

Þau hjónin hafa skoðað sig um bæði í Reykjavík og …
Þau hjónin hafa skoðað sig um bæði í Reykjavík og landsbyggðinni og fóru m.a. í Skeiðarétt um síðustu helgi. Mbl.is/Árni Sæberg
Martin Luther King flutti frægustu ræðu sína í Washington 28. …
Martin Luther King flutti frægustu ræðu sína í Washington 28. ágúst 1963. Cynthia segir það hafa verið mest spennandi dag ævi sinnar, á eftir brúðkaupsdeginum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert