Höskuldur heldur sínu striki

Höskuldur Þórhallsson
Höskuldur Þórhallsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar að halda sínu striki og sækist eftir fyrsta sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi. Mun hann etja kappi við formann flokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Birkir Jón Jónsson, varaformaður flokksins, sækist ekki eftir endurkjöri í komandi Alþingiskosningum.

Höskuldur Þór hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna umfjöllunar fjölmiðla af málum Framsóknarflokksins um helgina.

„Í ljósi atburða helgarinnar tel ég nauðsynlegt að svara ýmsum vangaveltum og fullyrðingum sem komið hafa fram í fjölmiðlum en eiga sér ekki stað í raunveruleikanum.

Ég vil þakka fréttastofu Stöðvar 2 fyrir að bregðast skjótt við og leiðrétta rangfærslur um að við Sigmundur Davíð hefðum farið yfir stöðuna sem upp er komin í Norðausturkjördæmi. Það rétta er að Sigmundur sendi mér sms föstudaginn 21. sept. sl. og spurði hvort ég yrði kominn á Sauðarkrók þá um kvöldið.

Mér hafði verið boðið í sjötugsafmæli á Akureyri á föstudagskvöldið og ætlaði þar af leiðandi að koma á fundinn þegar hann byrjaði á laugardagsmorguninn kl. 9.00. Á meðan fundurinn stóð yfir, á laugardeginum, fékk ég annað sms frá Sigmundi um að hann óskaði eftir að tala við mig við tækifæri. Ég svaraði honum um hæl í sms-i að hann skyldi bara hnippa í mig. Örfáum mínútum síðar tilkynnti Birkir Jón að hann myndi láta af varaformennsku í flokknum, jafnframt að hætta þingmennsku eftir kjörtímabilið, að minnsta kosti í bili. Þegar við gengum af fundinum var svo hringt í mig og mér sagt að Sigmundur hefði tilkynnt í fjölmiðlum að hann myndi sækjast eftir þingsæti fyrir Norðausturkjördæmi.

Í gær, sunnudag, hafði framkvæmdastjóri flokksins samband við mig og sagði mér að Sigmundur vildi ræða við mig. Ég mun að sjálfsögðu verða við þeirri bón.

Nú vil ég taka skýrt fram að samskipti okkar Sigmundar Davíðs  hafa verið góð í gegnum tíðina.

Tilkynning Sigmundar kom mér verulega á óvart. Ég hafði vissulega heyrt vangaveltur um hvort Birkir Jón hygðist halda áfram þingmennsku, sem voru ekki óeðlilegar í ljósi fjölskylduaðstæðna, einnig að forysta flokksins hefði áhyggjur af gangi mála í Reykjavík. Slíkar vangaveltur eru algengar í pólitík. Ég hafði hins vegar enga ástæðu til að halda að þær væru á rökum reistar, enda kom tilkynning Birkis Jóns flestum í þingflokknum á óvart.

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær kom fram að orðrómur hefði verið uppi í Norðausturkjördæmi um að formaður flokksins hygðist bjóða sig fram í kjördæminu. Ég get ekki séð að fréttin standist og tel útilokað að fréttamenn á svæðinu hefðu ekki fjallað um slíkar vangaveltur, ef þær hefðu verið jafn háværar og gefið var í skyn í fréttinni. Ég fékk upplýsingar frá fréttaritara RÚV í síðustu viku um að Birkir Jón hefði staðfest við sig að hann myndi halda áfram. Mér finnst undarlegt ef sögusagnir um framboð formannsins hefðu komið upp á meðan ekki var breytinga að vænta í kjördæminu.

Tímasetning tilkynningar um framboð mitt í 1. sæti flokksins í Norðausturkjördæmi er tilkomin vegna mikils þrýstings um að gera slíkt fyrr en seinna. Var það einróma álit fólks á bæjarmálafundi sem haldinn var á Akureyri 15. september sl. Það hefur ekki farið á milli mála að ég myndi sækjast eftir því sæti, í ljósi þeirrar forystu sem ég hef tekið í ýmsum málum á Alþingi og í kjördæminu.

Í fréttum gærdagsins var vitnað í viðtal sem tekið var við stjórnmálafræðinginn Birgi Guðmundsson. Í máli hans kom fram að tíðindi helgarinnar gæfu til kynna djúpstæðan ágreining innan Framsóknarflokksins. Í stuttu máli sé ég engin rök fyrir slíkum málflutningi, hvað mig snertir að minnsta kosti. Ég ákvað eftir flokksþingið 2009 að taka höndum saman við Sigmund Davíð, þá nýkjörinn formann flokksins. Þannig höfum við barist hlið við hlið í stórum deilumálum sem snerta framtíð þjóðarinnar. Samstarf okkar hefur verið gott þó að við höfum ekki alltaf verið sammála um hvaða leið sé vænlegust að settu marki og um þá lýðræðisþróun sem ný Framsókn stendur fyrir. 

Ég vil svo taka fram að ég mun halda mínu striki og sækjast eftir 1. sæti flokksins í Norðausturkjördæmi. Það skiptir máli að forystumaður flokksins í kjördæminu eigi þar rætur og hafi djúpan skilning, þekkingu og reynslu til að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem snúa að fólkinu í Norðausturkjördæmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert