Dreifði lista með skjólstæðingum

Persónuvernd.
Persónuvernd.

Umboðsmaður skuldara sendi út lista yfir 1.717 einstaklinga og 798 pör til þriggja lífeyrissjóða, Landssambands lífeyrissjóða og Landspítala án heimildar, að mati Persónuverndar. Embættinu er gert að gera skriflega lýsingu á öryggiskerfi og senda til Persónuverndar fyrir áramót.

Einn lífeyrissjóðanna vakti athygli Persónuverndar á miðlun persónuupplýsinga til sín frá umboðsmanni skuldara. Var um að ræða lista með nöfnum umræddra einstaklinga og para, heimilisföngum þeirra og kennitölum. Með því fylgdi spurning um hvort einhverjir á listanum hefðu sótt til sjóðsins um niðurfærslu veðskulda að 110% af verðmæti fasteignar og eftir atvikum hver staðan væri þá á þeirra málum.

Allir á listanum höfðu sótt um greiðsluaðlögun.

Persónuvernd óskaði í fyrstu upplýsinga um það hvers vegna umræddur listi var sendur Landspítalanum og var því svarað til, að það hafi verið fyrir mistök.

Í frekari skýringum umboðsmanns skuldara á listanum kom fram að embættið byggi ekki yfir tækni til að dulkóða tölvupóst og að sú tækni væri ekki heldur fyrir hendi hjá þeim sem hún væri í samskiptum við. Sagði að tilgangur sendingarinnar hafi verið sá að flýta fyrir niðurfærslu veðskulda að 110% af verðmæti eigna.

Persónuvernd telur að í lögum sé ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður skuldara sendi slíka lista sem um ræðir til allra aðila sem hugsanlega kunni að búa yfir upplýsingum um einstaklingana. Verður því ekki séð að slík miðlun hafi verið lögmæt.

Umboðsmanni skuldara var því leiðbeint um skyldu sína til að beita öryggisráðstöfunum.

Umboðsmaður skuldara
Umboðsmaður skuldara
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert